Líf í borgarholtsskóla

17/03/2023 | Ritstjórn

Heimsókn frá Lettlandi og Litháen

Bóknámsbrautir Borgó fengu góða heimsókn frá Lettlandi og Litháen á dögunum. Þar voru á ferðinni nemendur ásamt kennurum og var heimsóknin liður í verkefninu „Think green, act green“ sem styrkt er af Nordplus áætluninni. Anton Már Gylfason, Kristján Ari Arason og Óttar Ólafsson tóku á móti gestunum og skipulögðu heimsóknina.

Markmiðið var að fræðast um úrgangsminnkun, endurnýtingu og endurvinnslu á Íslandi. Áður höfðu nemendur Borgarholtsskóla farið til þessara landa til að fræðast um sjálfbærni. Í þessari heimsókn fræddust gestir okkar meðal annars um rannsóknir á nýrri aðferð til að framleiða ál sem dregur mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda, ljósatækni í stað fiskineta og gerð moltu í nýrri jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi.

Heimsókninni lauk með Gullna hringnum þar sem gestirnir fengu gott yfirlit yfir jarðsögu og jarðfræði landsins og mikilvægi jarðhitans í orkuöflun. Allir voru mjög ánægðir með ferðina og eiga eftir að bera hróður skólans og landsins víða.