Skólareglur

Ómetanleg dýrmæti

Tímabundin viðbót við skólareglur

Tímabundin viðbót við skólareglur Borgarholtsskóla sem gildir meðan á sérstökum sóttvarnarráðstöfunum stendur í skólanum vegna COVID-19 faraldursins var samþykkt á skólaráðsfundi þann 13. ágúst 2020: Skólameistara er heimilt að meina nemanda aðgang að skólahúsnæðinu hafi viðkomandi ekki farið að tilmælum og reglum um umgengni um sóttvarnarhólf skólans, ekki virt fjarlægðarmörk eða brotið reglur um sóttvarnir á annan hátt í skólanum.

Skólareglur

Viðmót nemenda, kennara og annars starfsfólks skólans einkennist af gagnkvæmri virðingu.

Nám krefst aga eins og fram kemur í einkunnarorðum skólans: agi, virðing, væntingar. Fyrst og fremst er nauðsynlegt að nemendur beiti sjálfsaga en í kennslustofunni er kennarinn verkstjóri og setur þar nánari reglur sem nemendum ber að hlýða.

Meðferð ágreiningsmála

Leitast er við að leysa ágreiningsmál fljótt og vel á vettvangi skólans.

Rísi ágreiningur milli nemenda, kennara og/eða annarra starfsmanna sem þeim tekst ekki að leysa skal vísa málinu til viðkomandi sviðstjóra. Finnist þar ekki lausn sem aðilar sætta sig við er málinu vísað til skólameistara sem tekur það til umfjöllunar og ákvörðunar. Uni málsaðilar, þar með talið forráðamenn nemenda yngri en 18 ára, ekki niðurstöðunni má vísa málinu til mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Brot á skólareglum og viðurlög

Nemendum ber að kynna sér skólareglur. Vanþekking á reglunum leysir þá ekki undan ábyrgð.

Brjóti nemandi reglur skólans fær hann tiltal eða áminningu. Við alvarleg eða ítrekuð brot kemur til skrifleg áminning frá skólameistara eða aðstoðarskólameistara. Fái nemandi skriflega áminningu eru foreldrar/forráðamenn ólögráða nemanda látnir vita.

Í skriflegri áminningu skal koma fram

 • tilefni áminningarinnar og þau viðbrögð sem fylgja brjóti nemandi aftur af sér.
 • að nemandanum sé gefinn kostur á að andmæla áminningunni og skal tímafrestur hans til þess tilgreindur.

Brjóti nemandi ítrekað eða gróflega af sér, t.d. með ofbeldisverknaði, með sölu fíkniefna eða með öðrum alvarlegum hætti, er honum vikið brott úr skóla tafarlaust.

Við meðferð mála skal sérstaklega gæta ákvæða stjórnsýslulaga, laga um meðferð persónuupplýsinga og upplýsingalaga.

Viðbrögð við broti á skólareglum geta verið eftirfarandi, eftir alvarleika brotsins:

 • Munnleg ábending frá starfsmanni skólans.
 • Tiltal sviðstjóra.
 • Skrifleg áminning mætingastjóra, kennslustjóra eða skólameistara.
 • Brottvikning úr áfanga.
 • Brottvikning úr skóla um lengri eða skemmri tíma.

Sjá einnig skólasóknarreglur og reglur um námsframvindu.

Skólasókn

Nemendum er skylt að mæta stundvíslega í allar kennskustundir samkvæmt stundaskrá. Gerð er lágmarkskrafa um 85% heildarskólasókn á önn.

 • Sama lágmarkskrafa er gerð um skólasókn í einstökum áföngum nema annað komi fram í námsáætlunum.

Seinkomur og fjarvistir

 • Komi nemandi of seint í kennslustund er skráð seinkoma. Tvær seinkomur jafngilda einni fjarvist.
 • Ef liðnar eru meira en 10 mínútur af kennslustund er skráð fjarvist.

Veikindi

 • Veikindi skal skrá í Innu samdægurs hvern veikindadag og skal skráning fara fram á skrifstofutíma. Forráðamenn nemenda undir sjálfræðisaldri þurfa að skrá veikindi þeirra.
 • Skráð veikindi eru dregin frá fjarvistum í einstökum áföngum fari þau ekki yfir 15% af kenndum tímum á önninni.

Skólasóknareinkunn

Skólasóknareinkunn ákvarðast af tímasókn og stundvísi. Einkunnir fyrir skólasókn eru eftirfarandi:

· 98 – 100 % heildarmæting 10
· 95 – 98 % heildarmæting 9
· 93 – 95 % heildarmæting 8
· 90 – 93 % heildarmæting 7
· 88 – 90 % heildarmæting 6
· 85 – 88 % heildarmæting 5
· 80 – 85 % heildarmæting 4
· 75 – 80 % heildarmæting 3
· 70 – 75 % heildarmæting 2
· 0 – 70 % heildarmæting 1

Nái nemandi í fullu námi einkunninni 9 eða 10 fær hann eina námseiningu á viðkomandi önn.

Viðurlög

Nemendur undir 18 ára

 • Fari viðvera til mætingareinkunnar undir 85% í einstaka áfanga eða heildarmætingu er nemandi ásamt forráðamanni kallaður til viðtals við skólastjórnendur.
 • Fari nemandinn ekki eftir þeim fyrirmælum um ástundun sem honum eru þar gefin fyrirgerir hann rétti sínum til áframhaldandi veru í viðkomandi áfanga eða áföngum.

Nemendur 18 ára og eldri

 • Nemandi fyrirgerir rétti sínum til áframhaldandi veru í áfanga fari viðvera til mætingareinkunnar undir 85% og að teknu tilliti til annarrar ástundunar.
 • Sé skólasóknareinkunn undir 5 þarf nemandinn að sækja um skólavist að nýju á síðu Menntamálastofnunar hyggist hann halda áfram námi. Ekki er tryggt að hann fái inngöngu.

Nánari ákvæði

 • Áfangastjóri sendir nemendum og forráðamönnum reglulega yfirlit yfir ástundun í tölvupósti og ber þeim að gera athugasemdir innan þriggja virkra daga ef þeir telja skráningar rangar. Yfirlitið gildir einnig sem áminning ef þar kemur fram að skólasóknin uppfylli ekki lágmarkskröfur.
 • Nemandi sem ekki getur sótt kennslustundir vegna langvarandi eða ítrekaðra veikinda eða áfalla skal skila vottorði frá meðferðaraðila til náms- og starfsráðgjafa skólans og vera í reglulegu sambandi við kennarana sína um framgang námsins. Auk þess skal hann skila reglulega á skrifstofu skólans yfirliti yfir fjarvistir sínar vegna veikindanna. Langtímavottorð skal endurnýjað við upphaf hverrar annar og skilað til náms- og starfsráðgjafa skólans.
 • Skólameistari getur veitt tímabundið leyfi frá tímasókn í sérstökum tilvikum, s.s. vegna dauðsfalls í fjölskyldu, keppnisferða landsliða og erlends skólasamstarfs.

Sérákvæði vegna afrekssviðs

Gerð er ríkari krafa um mætingu, ástundun og framvindu nemenda á afrekssviði. Nemandi fyrirgerir rétti sínum til náms á afrekssviði  við eftirfarandi:

 • Nemandi fer undir 85% mætingarhlutfall á önn.
 • Nemandi nær ekki lágmarkseinkunn 5 í afreksíþróttasviðsáfanga.
 • Nemandi nær ekki lágmarkseinkunn 5 í tveimur eða fleiri af þeim áföngum sem viðkomandi var skráður í við upphaf annar. Úrsögn jafngildir falli.
 • Nemandi gerist uppvís að broti á lífsstílssamningi afrekssviðs sem hann skrifaði      undir í upphafi námstíma.
Nemandi sem fyrirgerir rétti sínum til náms á afrekssviði getur þó haldið áfram námi á þeirri braut sem hann er skráður á standist hann skólareglur að öðru leyti.

Reglur um námsframvindu

 • Nemandi í fullu námi skal ljúka að lágmarki 15 einingum á önn. Skólameistari getur heimilað undantekningu frá þessari reglu vegna skilgreindra námsörðugleika, veikinda eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna.
 • Ljúki nemandi ekki tilskildum einingafjölda á önn er skólastjórnendum heimilt að takmarka þann fjölda eininga sem hann fær að skrá sig í á næstu önn. Hámarksfjöldi eininga sem velja má eru staðnar einingar á síðustu önn að viðbættum 10 einingum.
 • Nemandi sem ekki lýkur tilskildum einingafjölda getur þurft að sækja um skólavist að nýju og er honum þá gerð grein fyrir stöðu sinni þannig að hann geti einnig sótt um skólavist í öðrum framhaldsskólum. Skólanum er ekki skylt að endurinnrita nemandann.
 • Til að standast áfanga og fá leyfi til að hefja nám í næsta áfanga viðkomandi greinar þarf lágmarkseinkunnina 5. Þó er nemanda heimilt að útskrifast með einkunnina 4 í lokaáfanga greinar eða stökum áfanga ef hann á umframeiningar á móti.
 • Nemanda er einungis heimilt að skrá sig þrívegis í sama áfanga. Ef til þess kemur að nemandi falli oftar en þrisvar í sama áfanga skal hann í samráði við náms- og starfsráðgjafa skoða aðra möguleika á að ná þeim hæfniviðmiðum sem unnið er með í áfanganum.
 • Rekist tveir nauðsynlegir áfangar á í stundatöflu nemanda sem hefur eðlilega námsframvindu getur hann sótt um að vera skráður í báða áfangana og skal mætingin vera samkvæmt samkomulagi við kennara beggja áfanganna. Kjósi nemandi að stunda nám í fleiri en 38 einingum þarf hann að skrá sig í fjarnám í öðrum skóla.
 • Verði nemandi uppvís að svindli í tengslum við námsmat hefur það í för með sér áminningu og eftir atvikum fall í áfanga. Endurtekin eða alvarleg brot varða brottvikningu úr skóla.

Ástundun almennt

Nemandi sem fær undir 5 í mætingareinkunn og/eða lýkur færri en 15 einingum á önn þarf að sækja um skólavist að nýju milli anna og á ekki vísa samþykkt umsóknar.

Nemandi sem er orðinn 18 ára og fellur því ekki undir lög um fræðsluskyldu á á hættu að vera vísað frá námi ef ástundun hans er óviðunandi með tilliti til viðveru og vörðumats.

Ef nemandi missir af kennslustund verður hann að vinna jafnóðum upp utan kennslustunda það sem hann missti af. Missi hann af prófi eða verkefni sem gildir til einkunnar vegna veikinda, leyfa eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna verður hann að ræða úrlausn við viðkomandi kennara við fyrsta tækifæri og eigi síðar en þegar hann kemur aftur í skólann. Alltaf ber að virða skiladaga verkefna nema um annað sé samið við kennara og þá af gildri ástæðu.

Umgengni

Umgengni lýsir innri manni. Mikilvægt er að sýna sjálfum sér, samnemendum, starfsfólki og eigum skólans virðingu.

 • Ekki er gengið um skólahúsið á útiskóm. Í anddyri eru skógeymslur og allir nemendur eiga kost á læstum skáp.
 • Reykingar og tóbaksnotkun eru bannaðar í skólahúsinu og á skólalóð. Þetta gildir um allar reykingar og allt tóbak þar með taldar rafrettur og munntóbak, með eða án nikótíns.
 • Neysla áfengis og annarra vímuefna, eða að vera undir áhrifum slíkra efna, er með öllu óheimil í skólahúsinu og á skólalóð. Á skemmtunum og ferðalögum í nafni skólans er einnig bannað að neyta áfengis eða annarra vímuefna.
 • Ef nemandi veldur skemmdum á húsnæði eða búnaði skólans er hann bótaskyldur.
 • Matar skal aðeins neyta í matsal. Öllu rusli skal fleygja í ruslafötur.
 • Bílum skal leggja á afmörkuð bílastæði.

17.8.2021