Líf í borgarholtsskóla

Nemendaumsjón

Ólögráða nemendum á fyrsta ári í dagskóla er skipaður umsjónarkennari og í stundatöflu þeirra er einn umsjónartími á viku. Sérstök áhersla er á umsjón nýnema sem birtist t.d. í því að umsjón og lífsleiknikennsla er samþætt í þeim tilgangi að halda vel utan um nemendur er þeir stíga sín fyrstu skref í framhaldsskóla. Hlutverk umsjónarkennarans er m.a. að leiðbeina nemendum við skipulag námsins og veita þeim upplýsingar um skólastarfið og þá þjónustu sem skólinn veitir.

Eldri nýnemum og nemum á öðru ári er einnig skipaður umsjónarkennari. Hlutverk hans er að fylgjast með ástundun nemendanna, leiðbeina þeim við skipulag námsins og veita þeim upplýsingar um skólastarfið og þá þjónustu sem skólinn veitir.

Auk þessarar skipulögðu umsjónar hafa allir kennarar umsjón með nemendum í þeim áföngum sem þeir kenna í því sem snýr að náminu í viðkomandi áfanga.

Einnig geta nemendur snúið sér til sviðstjóra síns sviðs, fóstru mætinga og umsjónar eða náms- og starfsráðgjafa sem leiðbeina þeim um hvaðeina varðandi námið og stöðu þeirra í skólanum.

Fóstra mætinga og umsjónar

Við skólann starfar fóstra mætinga og umsjónar. Hún heldur utan um umsjónarkerfið og leiðbeinir umsjónarkennurum í starfi þeirra. Hún fylgist einnig með mætingu nemenda almennt en þó sérstaklega ástundun þeirra nemenda sem ekki hafa stundað nám sitt í samræmi við reglur um mætingu og námsframvindu. Fóstran hefur samband við umrædda nemendur, grennslast fyrir um ástæður slakrar mætingar eða annarrar ástundunar, gefur ráðleggingar og vísar nemendum til náms- og starfsráðgjafa ef þörf er á með það að markmiði að bæta ástundun og árangur.

Uppfært: 06/02/2023