Líf í borgarholtsskóla

28/11/2022 | Ritstjórn

Verðlaun í tilefni Forvarnardagsins

Nemendur á fyrsta ári í Borgarholtsskóla unnu á dögunum verðlaun fyrir myndband sem þau sendu inn í verðlaunaleik Forvarnardagsins. Þema verðlaunaleiksins var Verndandi þættir og lögðu nemendur skólans áherslu á þátttöku í skipulögðu íþrótta og tómstundastarfi í sínu verkefni.

Verðlaunin voru afhent með viðhöfn á Bessastöðum laugardaginn 26. nóvember síðast liðinn. Það voru þau Arnar Már Atlason, Ísold Hekla Þórðardóttir og Óðinn Máni Gunnarsson sem unnu verðlaunin en verkefni þeirra var unnið undir stjórn Flosa Jóns Ófeigssonar og Guðbjargar Hilmarsdóttur, kennara á listnámsbraut.

Borgarholtsskóli vann keppni framhaldsskólanna en í flokki grunnskóla varð Borgarhólsskóli á Húsavík hlutskarpastur. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Alma Möller landlæknir fluttu ávörp við afhendingu verðlaunanna og viðstödd voru nemendur skólanna ásamt foreldrum og forráðafólki auk þess sem kynningarefnið var sýnt.

Embætti landlæknis stendur fyrir Forvarnardeginum í samstarfi við embætti forseta Íslands, ÍSÍ, UMFÍ, Heimili og skóla, Rannsókn og greiningu, Reykjavíkurborg, SAFF, Samband sveitarfélaga, Samfés og Skátana. Forvarnardagurinn er haldinn ár hvert og er sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla.

Nemendum og kennurum er óskað innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.