Líf í borgarholtsskóla

05/12/2023 | Ritstjórn

Verðlaun í samkeppni Forvarnardagsins

Nemendur Borgó ásamt Forseta Íslands og landlækni

Nemendur Borgó ásamt Forseta Íslands og landlækni

Fjórir nemendur Borgarholtsskóla unnu á dögunum til verðlauna í samkeppni Forvarnardagsins. Þetta er annað árið í röð sem Borgarholtsskóli er hlutskarpastur á framhaldsskólastigi en nemendur úr Hrafnagilsskóla fengu verðlaun á grunnskólastigi.

Þema keppninnar eru verndandi þættir og lögðu nemendur áherslu á samveru með fjölskyldu í verkefni sínu. Það voru þau Daníel Orri Gunnarsson, Eybjörg Rós Tryggvadóttir, Snorri Steinn Svanhildarson og Sindri Þór Guðmundsson sem unnu verðlaunin en verkefni þeirra var unnið undir stjórn Flosa Jóns Ófeigssonar og Guðbjargar Hilmarsdóttur, kennara á listnámsbraut. Verðlaunin voru afhent á Bessastöðum sunnudaginn 2. desember. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Alma Möller landlæknir fluttu ávörp við afhendingu verðlaunanna og viðstödd voru nemendur skólanna ásamt foreldrum og forráðafólki.

Embætti landlæknis stendur fyrir Forvarnardeginum í samstarfi við embætti forseta Íslands, ÍSÍ, UMFÍ, Heimili og skóla, Rannsókn og greiningu, Reykjavíkurborg, SAFF, Samband sveitarfélaga, Samfés og Skátana. Forvarnardagurinn er haldinn ár hvert og er sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla.

Nemendum og kennurum er óskað innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.