Líf í borgarholtsskóla

01/12/2025 | Ritstjórn

Pop-up markaður til styrktar Berginu

Brenndar möndlur til sölu

Brenndar möndlur til sölu

Þriðjudaginn 25. nóvember fór fram Pop-up markaður á vegum nemenda í skapandi hugmyndavinnu (SKH3A05). Í áfanganum vinna nemendur með heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna undir stjórn Flosa Jóns Ófeigssonar og Helgu Kristrúnar Hjálmarsdóttur, kennara á listnámsbraut. Hvert ár velja nemendur góðgerðasamtök sem njóta góðs af ágóða markaðarins og að þessu sinni varð Bergið headspace fyrir valinu. Söfnuðu nemendurnir um 70 þúsund krónum sem renna óskiptar til þessa góða málefnis.

Meðal þess sem boðið var upp á var pílukast þar sem ýmiss verðlaun voru í boði, að rappa inn á lag og að kasta þeyttum rjóma í starfsmann skólans og jafnvel samnemanda. Einnig var hægt að festa kaup á handunnum kertum, smákökum, brenndum möndlum, límmiðum, skartgripium og jólapappír, svo eitthvað sé nefnt.

Markaðurinn var líflegur og skemmtilegur og eiga bæði nemendur og kennarar hrós skilið fyrir hversu vel tókst til.