Líf í borgarholtsskóla

19/12/2025 | Ritstjórn

Brautskráning haust 2025

Nemendur prúðbúnir í myndatöku

Nemendur prúðbúnir í myndatöku

Föstudaginn 19. desember 2025 fór fram brautskráning í Borgarholtsskóla. Athöfninni var streymt á Facebooksíðu skólans af nemendum í kvikmyndagerð undir stjórn Þorgeirs Guðmundssonar kennara.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar flutti jólalega tónlist undir stjórn Daníels Friðjónssonar í anddyri skólans á meðan gestir voru að koma sér fyrir í sætum sínum.

Ársæll Guðmundsson skólameistari setti athöfnina og gaf Flosa Jóni Ófeigssyni kennara því næst orðið, en hann var kynnir og stýrði athöfninni.

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir aðstoðarskólameistari flutti annál annarinnar og fór yfir helstu viðburði, bæði í hinu formlega skólastarfi og í félagslífi nemenda. Alls stunduðu 1295 nemendur nám við Borgarholtsskóla á haustönn 2025, 1020 í dagskóla og 275 í dreifnámi.

Sönghópur Borgarholtsskóla söng tvö lög undir stjórn Guðbjargar Hilmarsdóttur kennara. Fyrra lagið sem þau fluttu var Einhvers staðar einhvern tímann aftur, lag og texti Magnúsar Eiríkssonar. Seinna lagið var Dansaðu vindur en lagið er eftir Peter og Nanne Grönvall og textinn eftir Kristján Hreinsson.

Þá var komið að hinni eiginlegu brautskráningu. Ársæll og Ásta Laufey höfðu það verk með höndum ásamt sviðsstjórum. Alls brautskráðust 105 nemendur af námsbrautum skólans að þessu sinni, sumir hverjir af fleiri en einni braut. Sviðsstjórar afhentu öllum brautskráðum nemendum sýprusplöntu um leið og þau tóku við skírteinum sínum.

Fjölmörg verðlaun og viðurkenningar voru veitt fyrir góðan námsárangur. Ingibjörg Lilja Hólmarsdóttir, sem brautskráðist úr viðbótarnámi leikskólaliða, var með hæstu meðaleinkunn að þessu sinni en meðaleinkunn hennar var 9,27.

Marólína Fanney Friðfinnsdóttir flutti kveðjuávarp útskriftarnema en hún útskrifast af braut fyrir stuðningsfulltrúa í skólum. Þess má geta að Marólína Fanney vinnur sem stuðningsfulltrúi við sérnámsbraut skólans.

Þá var komið að ávarpi skólameistara til brautskráðra nemenda. Ársæll ræddi um mikilvægi þess að missa ekki mennskuna í sífellt stafrænni heimi. Hann minnti nemendur á að glata ekki hugsjónum sínum og ábyrgði þeirra að vinna stöðugt að betra samfélagi. Hann hvatti nemendur til þess að velja samvinnu fram yfir átök, skilning yfir misskilning og góðvild fram yfir afskiptaleysi.

Þóra Lárusdóttir, íslenskukennari við skólann, lætur af störfum sökum aldurs og var henni færður þakklætisvottur fyrir sín störf.

Velunnurum skólans var þakkað fyrir þeirra framlag til skólastarfsins. Starfsfólki skólans, sem telur um 150 manns, var þakkað fyrir samstarfið á skólaárinu og fyrir að mennta nemendur Borgarholtsskóla af metnaði, hugsjón og fagmennsku. Einnig var öllum þeim sem með einum eða öðrum hætti komu að framkvæmd og skipulagningu brautskráningarathafnarinnar færðar sérstakar þakkir.

Fleiri myndir frá athöfninni eru á Facebooksíðu skólans.