Líf í borgarholtsskóla

20/12/2023 | Ritstjórn

Brautskráning að hausti 2023

Útskriftarhópurinn í desember 2023

Útskriftarhópurinn í desember 2023

Miðvikudaginn 20. desember 2023 fór fram brautskráning í Borgarholtsskóla.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar spilaði undir stjórn Daða Þórs Einarssonar í anddyri skólans á meðan gestir voru að koma sér fyrir í sætum.

Ársæll Guðmundsson skólameistari setti athöfnina og gaf orðið til Nökkva Jarls Bjarnasonar kennara sem var kynnir og stýrði athöfninni. Nemendur í kvikmyndagerð undir stjórn Þorgeirs Guðmundssonar kennara streymdu athöfninni á facebook síðu skólans.

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir aðstoðarskólameistari flutti annál annarinnar. 1192 nemendur stunduðu nám við skólann, 965 í dagskóla og 227 í dreifnámi. Hún fór yfir það helsta sem gerst hefur á önninni, bæði í hinu formlega skólastarfi og hjá Nemendafélagi skólans sem staðið hefur sig mjög vel.

Sönghópur Borgarholtsskóla flutti tvö tónlistaratriði undir stjórn Olgu Lilju Bjarnadóttur kennara. Fyrra lagið sem þau fluttu var Fallegur dagur en lagið og textinn er eftir Bubba Morthens. Hið síðara var hinn þekkti jólasálmur Heims um ból eftir Franz Gruber við texta Sveinbjörns Egilssonar.

Ársæll og Ásta Laufey sáu um brautskráningu nemenda ásamt sviðsstjórum en 74 nemendur voru brautskráðir af mismunandi námsbrautum skólans og sumir útskrifuðst af fleiri en einni braut. Venja er að allir útskriftarnemar fái hýasintu við brautskráningu um jól en að þessu sinni fengu útskriftarnemar rósir vegna uppskerubrests á hýasintum. Fjölmörg verðlaun og viðurkenningar voru veitt fyrir góðan námsárangur. Þórey Inga Örvarsdóttir Thorarensen hlaut hæstu einkunn á stúdentsprófi en hún útskrifaðist með viðbótarnám til stúdentsprófs eftir nám á leikskólaliðabraut.

Katrín Eir Ásgeirsdóttir flutti kveðjuávarp útskriftarnema en hún fékk einnig viðurkenningu fyrir störf í þágu nemendafélags skólans, NFBHS.

Ársæll flutti ræðu til útskriftarnema. Í ræðu sinni ræddi hann hugtakið árangur og hvað felst í því. Hann sagði að árangur ætti sér uppsprettu í ýmsu en árangur væri áfangi sem er náð. Norm og samfélagið hafa mikið um að segja hvað telst æskilegur árangur. Uppspretta árangurs er innra með hverjum og einum og það er hlutverk skólans að breyta viðhorfum en ekki að steypa alla í sama mótið enda er það ekki hægt þar sem manneskjur eru margar og mismunandi. Ársæll sagði nemendum að það væri mikilvægt að eiga sér hugsjónir og takmark en það mætti aldrei verða á kostnað annarra. Hann hvatti nemendur til að sýna hugrekki, kjark og þor og minnti á að bestu launin væru vellíðan sem fylgdi vel unnu dagsverki.  Hann minnti á lífsfyllingin eða sigrarnir í lífinu fáist ekki  með því að sneiða hjá öllum erfiðleikum og án áfalla, heldur fælust sigrar lífsins í því að standa upp aftur. Að lokum óskaði Ársæll útskriftarnemendum góðra  friðartíma þar sem þau sjálf yrðu merkisberar friðar, auk þess að óska þeim velfarnaðar í leik og starfi þar sem árangur af störfum þeirra yrði metinn á forsendum manngæsku og kærleika frekar en krónum og lækum á samfélagsmiðlum.

Bernd Hammerschmidt þýskukennari og Ásgeir Gunnarsson kennari í bíliðngreinum láta nú af störfum sökum aldurs og voru þeir báðir kvaddir og þeim þakkað fyrir vel unnin störf.

Velunnurum skólans var þakkað fyrir þeirra framlag til skólastarfsins. Starfsfókinu, sem er um 150 manneskjur, var þakkað fyrir samstarfið á skólaárinu og fyrir að mennta nemendur Borgarholtsskóla af metnaði, hugsjón og fagmennsku. Einnig var öllum þeim, sem með einum eða öðrum hætti, komu að framkvæmd og skipulagningu brautskráningarinnar færðar sérstakar þakkir.

Fleiri myndir frá athöfninni eru á facebook síðu skólans .