Algengar spurningar og svör

Hvar er Borgarholtsskóli?

Skólinn er í Grafarvogi í Reykjavík, við Mosaveg (við hliðina á Spönginni).

Hvenær er skrifstofa skólans opin?

Skrifstofan er opin mánudaga til fimmtudaga klukkan 8:00-16:00 og föstudaga klukkan 8:00-15:00.

Hvenær er skólinn opinn nemendum?

Skólinn er opinn nemendum klukkan 7:20 – 16:00 mánudaga til föstudaga.

Hvenær er opið á bókasafninu?

Bókasafnið er opið mánudaga-fimmtudaga klukkan 8:00-16:00 og föstudaga klukkan 8:00-13:30.

Hvernig tilkynni ég veikindi?

Veikindi skal skrá í Innu. Veikindi skal tilkynna á skrifstofutíma hvern veikindadag. Forráðamenn nemenda undir sjálfræðisaldri þurfa að tilkynna veikindi þeirra. Nánari upplýsingar .

Hvar eru náms- og starfsráðgjafarnir?

Við skólann starfa tveir náms- og starfsráðgjafar og eru þeir staðsettir á 3. hæð í stofu 309.

Hvernig bóka ég tíma hjá náms- og starfsráðgjafa?

Hægt er að bóka tíma á bókunarvef.

Ég er með greiningar ( lesblindugreinging, ADHD o.fl.) sem skólinn þarf að sjá, hvað geri ég við þær?

Náms- og starfsráðgjafar taka við öllum greiningum og fara yfir næstu skref og hvaða aðstoð er hægt að fá í kjölfarið.

Hvenær ætti að hitta náms- og starfsráðgjafa?

Ef þér líður ekki vel í skólanum.
Ef þú nærð ekki að mæta í skólann.
Ef þú vil skipta um námsbraut eða skóla.
Ef þig vantar hvatningu og pepp í lífið.
Ef þig vantar ráð til að skipuleggja námið og tímann.
Ef þú vilt finna út hvaða áfanga á að velja fyrir næstu önn.
Ef þú þarft að skrá mig úr áfanga/skóla.
Ef þú þarft að skila inn langtímavottorði eða greiningum.

Er gerð krafa um að ég mæti með eigin fartölvu í skólann?

Já það er ætlast til að nemendur mæti með eigin fartölvur í skólann.

Hvað á ég mikinn prentkvóta?

Í upphafi annar fá nemendur úthlutað 50 blöðum í prentkvóta. Hægt er að kaupa viðbótarkvóta á skrifstofu og kostar hvert blað 20 krónur.

Get ég prentað út úr minni eigin fartölvu?

Nei, það er ekki hægt. En hægt er að fara á bókasafnið og prenta þar út.

Er áfangakerfi eða bekkjarkerfi í skólanum? 

Það er áfangakerfi í Borgarholtsskóla. 

Hvaða námsbrautir eru í skólanum?

Afrekið Kvikmyndagerð
Bifreiðasmíði Leiklist
Bifvélavirkjun Leikskólaliðar
Bílamálun Náttúrufræðibraut
Blikksmíði Rennismíði
Félags- og hugvísindabraut Sérnámsbraut
Félagsmála- og tómstundanám Stálsmíði
Félagsliðar Stuðningsfulltrúar
Framhaldsskólabraut Vélvirkjun
Grafísk hönnun Viðskipta og frumkvöðlabraut

Er tónlistarnám metið til eininga?

Ef nemandi er á braut þar sem gert er ráð fyrir frjálsu vali getur hann óskað eftir að fá tónlistarnám metið sem svarar til þeirra eininga sem heimilaðar eru í frjálsu vali. Miðað er við að nemandi hafi lokið miðstigi.

Er listdansnám og myndlist metið til eininga? 

Ef nemandi er á braut þar sem gert er ráð fyrir frjálsu vali getur hann óskað eftir að fá nám í listdansi eða myndlist metið sem svarar til þeirra eininga sem heimilaðar eru í frjálsu vali. Nemandi framvísar gögnum um nám sitt og er þau metin í hverju tilviki fyrir sig.

Má sleppa skólaíþróttum ef nemandi æfir íþróttir?

Nemendur í byrjunaráföngum (LÍL1A01 og LÍL1B01) geta ekki fengið íþróttaiðkun utan skóla metna. Að öllu jöfnu er ekki gert ráð fyrir að nemendur í efri áföngum, sem ekki eru á afreksbraut, geti fengið íþróttaiðkun utan skóla metna. Þetta er þó metið á einstaklingsgrundvelli hverju sinni og mikilvægt að hafa samband við íþróttakennara strax í byrjun annar ef þörf er á nánari upplýsingum.

Hver eru inntökuskilyrðin?

Til þess að hefja nám þarf umsækjandi að hafa lokið grunnskóla með einkunnina B, B+ eða A í ensku, íslensku og stærðfræði. Umsækjandi með C eða C+ getur innritast á brautirnar en tekur sérstaka undirbúningsáfanga í þeim fögum sem hann hefur ekki lokið með B eða betri einkunn.

Umsækjandi sem lokið hefur grunnskóla með einkunnina D í einni eða fleiri kjarnagreinum (ensku, íslensku eða stærðfræði) getur innritast framhaldsskólabraut með mismunandi áherslur: bóknáms, listnáms eða verknáms.

Hvernig er námsmatið?

Í skólanum er notast við símat og því engin lokaprófatíð. Nemendur skila verkefnum og taka styttri próf yfir önnina sem telja saman í lokaeinkunn áfanga.

Hvað gerist ef nemandi stundar skólann illa?

Fái nemandi undir 5 í mætingareinkunn eða ljúki færri en 15 einingum á önn þarf hann að sækja um skólavist að nýju milli anna og á ekki vísa samþykkt umsóknar. Nemanda sem er undir 18 ára er ekki vísað úr skóla á miðri önn vegna slakrar ástundunar en nemandi sem er orðinn 18 ára og fellur því ekki undir lög um fræðsluskyldu á á hættu að vera vísað frá námi ef ástundun hans er óviðunandi með tilliti til viðveru og vörðumats.

Hvernig er félagslífið í skólanum?

Í skólanum er nemendafélag sem sér um að halda alls konar viðburði yfir önnina.
Nýnemaferð
Böll, t.d. 80‘s ball, sveitaball ofl
Hlöðukvöld, t.d. spunakvöld, guitarherokvöld, söngkeppni ofl
Leikfélagið setur upp leikrit á hverju ári
Skóhlífadagar, sem eru þemadagar
Lífshlaupið
Paintball mót

Hvað er dreifnám og hvað er hægt að læra í dreifnámi?

Boðið er upp á dreifnám á félagsvirkni- og uppeldissviði og málm- og véltæknibrautum. Það nám er hugsað fyrir þá sem eiga þess ekki kost að stunda hefðbundið nám í dagskóla og er því hægt samhliða námi í dreifnámi að stunda vinnu.

Hvað er afreksíþróttasvið?

Nemendur geta sótt um nám á afreksíþróttasviði sem hluta af námi til stúdentsprófs á bóknámsbrautum. Einingar afrekssviðs nýtast að fullu upp í einingafjölda til stúdentsprófs. Borgarholtsskóli býður upp á afreksíþróttasvið fyrir alla nemendur sem stunda skipulagðar keppnisíþróttir undir handleiðslu þjálfara.  Námið er að mestu verklegt þar sem boðið er upp á sérstakar tækniæfingar í völdum íþróttagreinum þar sem fjöldi og aðstæður leyfa (fótbolti, handbolti, golf og íshokkí svo dæmi séu tekin). Nemendur úr öðrum íþróttagreinum fá líkamlegar styrk- og þolæfingar ásamt sérstaklega smíðuðum verkefnum og utanumhald. Á sviðinu fer einnig fram skipulögð bókleg kennsla þar sem farið er í grunnstoðir árangurs í íþróttum; líkamlega og sálfræna þjálfun, svefn og næringu ásamt félagslegum þáttum.

Geta allir nemendur komist inn á afreksíþróttasvið skólans? 

Nei en flestar umsóknir eru samþykktar að uppfylltum skilyrðum. Í fyrsta lagi þarf umsókn um nám í skólanum að vera samþykkt en sótt er um skólavist í gegnum Menntagátt . Í öðru lagi þarf viðkomandi að stunda íþrótt skipulega undir handleiðslu þjálfara. Í þriðja lagi þarf að fylla vandlega út rafræna umsókn og þarf umsækjandi að vera í sambandi við sinn þjálfara og fá leyfi hans til að láta tengiliðaupplýsingar hans sem meðmælenda fylgja með umsókninni. 

Getur nemandi tekið afreksíþróttasviðið með öðrum brautum en bóknámsbrautum, til dæmis  málm- og véltæknibrautum, bíltækibrautum eða listnámsbrautum?

Tímaskipulag afreksíþróttasviðsins er skipulagt samhliða bóknámsbrautum skólans. Óski nemandi af öðrum námsbrautum eftir því að stunda nám á afreksíþróttasviði samhliða sinni braut, er sótt um það í samráði við sviðsstjóra viðkomandi brautar og verkefnisstjóra afrekssviðs. Einingar eru að mestu viðbót við einingafjölda viðkomandi brautar. Hins vegar geta þær nýst í stað íþróttaeininga eða í frjálst val.

Í hvað fer 40.000,- kr efnisgjald sem greitt er á hverri önn á afreksíþróttasviði?

Nemendur fá námsgögn, fatnað, haustferðir og auk þess er innifalið í þessu ákveðnar tryggingar fyrir íþróttafólk. Hægt er að sjá nánari útlistun á því hvað efnisgjaldið greiðir inn á síðu afreksíþróttasviðsins

Hvaða íþróttagreinar koma til greina að stunda við nám á afreksíþróttasviði? 

Í dag samþykkjum við allar íþróttagreinar sem falla undir eftirfarandi skilyrði:
Við umsóknir er miðað er við að nemendur stundi íþrótt skipulega undir handleiðslu þjálfara. Að nemendur hafi æft sína íþrótt, öðlast góða færni og að vera virkur iðkandi í íþróttafélagi. 
Afreksíþróttasvið áskilur sér rétt til að hafna umsókn ef sýnt þykir að umrætt íþróttastarf standist ekki kröfur sviðsins sem gerðar eru um skipulag æfinga og þjálfun undir stjórn þjálfara. 

 

15.8.2022