Viðbrögð við áföllum

Áætlun Borgarholtsskóla

Símanúmer Borgarholtsskóla er 535 1700.

Fulltrúar í áfallaráði .

Áfall merkir m.a. slys, tjón, mótlæti, þungbær reynsla eða sjúkdómur skv. Orðabók Menningarsjóðs.

Almennt um áfallahjálp:

Miklu máli skiptir að kennarar eða starfsmenn sem veita áfallahjálp séu rólegir og gefi sér nægan tíma.

Mikilvægt er að sá sem verður fyrir áfalli finni að hann sé öruggur og geti treyst þeim sem eru hjá honum og að farið sé á afvikinn stað til að fá næði.  Þolandi verður að finna fyrir hlýju og vinsemd, um leið og staðreyndir eru skýrðar fyrir honum.  Einnig verður að gefa honum tíma til að tjá sig til að koma skipulagi á tilfinningar sínar og hugsun.

Ef slys verður í skóla skal líkamleg skyndihjálp hafa forgang.

Sálræn skyndihjálp felst í því að kennarar og starfsmenn skólans róa og hugga nemendur og starfsfólk.  Þeim skal leyfast að fá sem eðlilegasta útrás fyrir tilfinningar sínar, sem geta birst á mismunandi hátt, m.a. sem grátur, ógleði, skjálfti og köfnunartilfinning en geta líka verið doði, tómleikatilfinning, fólksfælni og þörf fyrir einveru.

Viðbrögð skólans við alvarlegu slysi:

 1. Tilkynna á alvarleg slys í skóla til neyðarlínu, síma 112.
 2. Hafa strax samband við skólameistara eða aðstoðarskólameistara.  Áfallaráð er kallað saman ef nauðsynlegt er.
 3. Starfsmaður sem kemur að slysi skráir hjá sér vitni sem voru að atburðinum og lætur skólameistara fá listann.
 4. Skólameistari eða aðstoðarskólameistari hefur samband við námsráðgjafa til að annast persónuleg mál nemenda sem tengjast slysinu.
 5. Samskipti við foreldra eru í höndum námsráðgjafa/stjórnenda sem njóta aðstoðar umsjónarkennara ef þurfa þykir.
 6. Samskipti við lögreglu og fjölmiðla eru í höndum skólameistara.
 7. Starfsmenn skrifstofu fá upplýsingar og sjá um að halda boðleiðum opnum.
 8. Tilkynning um slys getur farið fram á sameiginlegum fundi nemenda og starfsfólks eða eftir öðrum leiðum.

Viðbrögð skólans við dauða:

 1. Hefjast skal strax handa! Erfitt er að leiðrétta sögusagnir eftir á, því verður að bregðast skjótt við.
 2. Ef starfsfólk heyrir af andláti nemanda eða einhvers sem er tengdur skólanum skal tilkynna skólastjórnendum það strax.
 3. Fá staðfestingu á andláti hjá aðstandendum, lögreglu, sjúkrahúsi eða presti.
 4. Skólameistari/aðstoðarskólameistari hefur samband við námsráðgjafa/umsjónarkennara til að annast persónuleg mál nemanda sem tengist áfallinu og er í samskiptum við aðstandendur. Hann upplýsir einnig starfsfólk.
 5. Áfallaráð skólans er kallað saman ef sá látni er nemandi skólans eða starfsmaður.  Fara þarf yfir verkaskiptingu og aðgerðir skólans. 
 6. Samskipti við fjölskyldu þess látna (ef um nemanda er að ræða) eru í höndum námsráðgjafa/skólastjórnenda sem njóta aðstoðar umsjónarkennara ef þurfa þykir.
 7. Öll samskipti við lögreglu og fjölmiðla eru í höndum skólameistara.
 8. Flagga skal fána skólans í hálfa stöng að tilkynningu lokinni og eins á útfarardegi.
 9. Ef skólanum berst tilkynning um áfall er snertir nemanda skólans skal tilkynna áfallaráði skólans um það um leið og upplýsingar berast.  Einnig skal skólameistari/aðstoðarskólameistari tilkynna kennurum sem kenna viðkomandi nemanda um atburðinn eins fljótt og auðið er.

Aðgerðaröð í áföllum

Andlát nemanda:

 1. Skólameistari/aðstoðarskólameistari tilkynnir áfallaráði skólans um atburðinn.
 2. Skólameistari kallar starfsmenn skólans saman þar sem þeim er tilkynnt hvað gerst hefur og hver viðbrögð skólans muni vera.
 3. Skólameistari/aðstoðarskólameistari segir nemendum frá atburði. Gæta þarf þess að allir nemendur fái fregnina á svipuðum tíma.  Gefa verður einstökum nemendum kost á að ræða um atburðinn og líðan sína.  Hugsanleg eftirfylgd við einstaka nemendur.
 4. Skólameistari/aðstoðarskólameistari eða námsráðgjafi hefur samband við fjölskyldu hins látna sem fyrst (til dæmis með heimsókn og/eða blómasendingu) og ræðir um hvernig skólinn minnist hins látna.
 5. Samúðarkveðjur frá skóla.
 6. Minningarathöfn í skóla eða kirkju í samráði við prest og fjölskyldu.
 7. Minningargrein birt í blaði sem kveðja frá skóla.
 8. Nemendur fá að tjá sig um fráfallið þó einhver tími sé liðinn.

Andlát starfsmanns:

 1. Samstarfsmönnum er strax tilkynnt um látið.
 2. Samband er haft við aðstandendur, til dæmis með heimsókn og/eða blómasendingu.
 3. Minningarathöfn um hinn látna er haldin í skólanum eða kirkju fyrir nemendur.
 4. Samstarfsmenn sjái til þess að minningargrein eða kveðja birtist í blaði.

Andlát nákomins ættingja nemanda (foreldris/systkinis eða annarra nátengdra ættingja) eða starfsmanns:

 1. Skólameistari/aðstoðarskólameistari tilkynnir starfsfólki um atburðinn og möguleg viðbrögð í framhaldinu.

10.3.2020