Umhverfisstefna Borgarholtsskóla

Í stefnuskrá skólans segir m.a. að hlutverk hans sé að  efla með nemendum mannskilning, tillitssemi og virðingu fyrir fólki, náttúru og umhverfi.

Það er því ljóst að eitt af veigamiklum hlutverkum skólans er að efla vitund nemenda fyrir umhverfinu og verndun þess.

Hver eru markmiðin?Skólahús úr vesturátt

Í umhverfisstefnu skólans felast m.a. eftirfarandi markmið.  Að:

  • glæða skilning nemenda á náttúrunni og nauðsyn góðrar umgengni við hana.
  • auka þekkingu nemenda á sjálfbærri þróun og hófsamri nýtingu auðlinda.
  • skapa nemendum tæki færi og hvetja þá til í íslenskri náttúru.
  • stuðla að góðri umgengni nemenda og starfsmanna um sitt nánasta umhverfi.
  • efla skilning nemenda á mengunarvöldum og forvörnum á því sviði.
  • stuðla að aukinni ábyrgð og þekkingu starfsmanna á umhverfismálum.

 

Hvaða leiðir förum við í framkvæmd stefnunnar?

Leiðir að þessum markmiðum eru m.a. fólgnar í kennslu í lífsleikni, skýrum reglum í verknámshúsum um meðferð spilliefna, samvinnu við samtök um gróðurvernd og reglulegar gróðursetningarferðir. Í íþróttaáföngum er regluleg útivist, m.a. gönguferð á Esju og nýnemar fara allir í haustferðir um Suðurland, einkum í Þórsmörk.  Á náttúrufræðibraut er lögð áhersla á dagsferðir með nemendum í jarðfræði og líffræði.  Þar er hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar fléttuð inn í námið þar sem færi gefst.  Á iðnnámsbrautum eru sérstakir áfangar sem styðja umhverfisstefnuna.

Vel er hugað að gróðri og góðri umgengni á lóð skólans og hún hreinsuð reglulega, auk þess sem regluleg umhirða plantna utan sem innan skólans er tryggð. Þá er hefð að hver nemandi sem útskrifast að vori frá skólanum fær með prófskírteini litla birkiplöntu til gróðursetningar.

Í skólareglum er skýrt kveðið á um góða umgengni nemenda um skólann, m.a. að nemendur séu ekki á útiskóm í kennsluhúsnæði og göngum skólans og því fylgt fast eftir.  Öll efni til ræstingar eru vistvæn.

Kennarar og aðrir starfsmenn eru styrktir til þátttöku á námskeiðum og ráðstefnum sem lúta að umhverfisvernd, bæði til eflingar kennslu og bættrar eftirfylgni umhverfisvænnar stefnu.

Skólinn vinnur kerfisbundið að því að fá þá umhverfisvottun sem fólgin er í Grænfánanum.