Starfsmannastefna Borgarholtsskóla

Starfsmannastefnan

Starfsmannastefna Borgarholtsskóla

Forsenda góðs árangurs í skólastarfi er fjölhæft, áhugasamt og traust starfsfólk. Starfsmannastefnunni er ætlað að stuðla að góðum starfsanda og vera til hvatningar og upplýsingar fyrir allt starfsfólk skólans. Starfsmannastefnan felur í sér sameiginlega sýn starfsfólks á þá þætti sem gera skólann að eftirsóknarverðum vinnustað þar sem gott starf er unnið af vel menntuðu, áhugasömu og hæfu fólki í anda jafnræðis.

Markmið starfsmannastefnunnar er að uppfylla væntingar sem eru gerðar til Borgarholtsskóla og starfsmanna hans. Henni er ætlað að tryggja starfsmönnum góð starfsskilyrði, vellíðan á vinnustað og möguleika til að vaxa og dafna í starfi. Því eru lýðræðisleg vinnubrögð sem stuðla að samræðu, jafnræði og gagnsæi, í hávegum höfð. Borgarholtsskóli leitast við að tryggja hverjum starfsmanni þau skilyrði og þá aðstöðu sem hann þarf til að rækja starf sitt vel.

Ráðningar

Hjá Borgarholtsskóla er staðið faglega að ráðningum.

 • Öll störf eru auglýst í samræmi við starfsmannalög.
 • Ráðning byggist á hæfni umsækjenda.
 • Ákvörðun um ráðningu í starf er rökstudd og byggð á málefnalegum sjónarmiðum.
 • Jafnréttissjónarmiða er gætt við mannaráðningar.
 • Nýjum starfsmanni er kynnt stefnuskrá skólans og mælst er til að hann starfi í anda hennar.

Móttaka og þjálfun nýliða

Nýir starfsmenn Borgarholtsskóla njóta leiðsagnar og stuðnings.

 • Tekið er formlega á móti nýjum starfsmönnum.
 • Skólinn og reglur hans eru kynntar nýjum starfsmönnum.
 • Næsti yfirmaður er ábyrgur fyrir því að nýjum starfsmanni sé veitt fræðsla um það sem lýtur sérstaklega að starfssviði hans.

Gagnkvæmar væntingar

Starfsmenn hafa væntingar til Borgarholtsskóla sem vinnustaðar og Borgarholtsskóli hefur
væntingar til allra starfsmanna sinna.

 • Starfsmenn sýna ábyrgð, frumkvæði, samstarfsvilja, metnað og sjálfstæði í starfi.
 • Starfsmönnum er sýnt traust og tillitsemi.
 • Vinnuaðstaða og félagslegt starfsumhverfi er gott.
 • Starfsmönnum er veitt tækifæri til að menntast og dafna í starfi.
 • Starfsmenn hafa tækifæri til að taka þátt í mótun stefnu skólans og ákvörðunum um málefni sem varða störf þeirra sérstaklega.
 • Starfsmenn njóta hæfileika sinna og menntunar.

Fjölskyldustefna

 • Leitast er við að skapa starfsmönnum aðstæður til að samræma starf og fjölskyldulíf.
 • Á hverju ári eru haldnar skemmtanir fyrir starfsmenn og fjölskyldur þeirra, t.d.
  jólatrésskemmtun og páskaeggjaleit.
 • Makar eru hvattir til þátttöku á skemmtunum starfsmanna, t.d. haustferðum og
  árshátíðum.

Starfsþróun

Litið er á starfsþróun sem virkan þátt í skólastarfinu.

 • Stuðlað er að ánægju starfsmanna og að þeir vaxi í starfi.
 • Hlutverk starfsmanna eru skýr og þeir fá hvatningu í starfi.
 • Starfsþróun er viðhaldið og hún aukin með símenntun.
 • Starfsmenn eiga kost á símenntun innan sem utan skólans til að auka þekkingu sína og faglega hæfni sem nýtist í starfi.
 • Skólinn og starfsmenn hans bregðast við síbreytilegum þörfum nemenda og þjóðfélags.

Endurgjöf

Starfsmönnum er veitt regluleg endurgjöf vegna starfa sinna.

 • Endurgjöf til starfsmanna er regluleg og formleg en einnig óformleg eftir atvikum.
 • Skólinn leggur sitt af mörkum til að styrkja jákvæðan starfsanda og félagslíf starfsmanna.
 • Reglubundin starfsmannasamtöl eru vettvangur samræðu milli starfsmanna og stjórnenda.
 • Væntingar stjórnenda og starfsmanna eru ljósar og samráð er haft um umbætur þar sem þeirra er þörf.

Jafnrétti

Í Borgarholtsskóla eru jafnréttissjónarmið í hávegum höfð.

 • Stuðlað er að samvinnu og gagnkvæmri virðingu milli allra starfsmanna skólans í samræmi við jafnréttisáætlun skólans. Jafnréttisáætlunina er að finna á vef skólans.
 • Tækifæri til framgangs í starfi stjórnast af hæfni einstaklingsins en ekki af kynferði, aldri eða öðrum aðgreinandi þáttum.
 • Jafnréttissjónarmiða er gætt á öllum sviðum skólastarfsins.
 • Borgarholtsskóli vill að í skólanum ríki andi jafnræðis og samkenndar þar sem hver starfsmaður nýtur sín og vex í starfi.

Mannauður og samskipti

Í Borgarholtsskóla er stöðugt miðað að góðum starfsanda og samskiptum.

 • Upplýsingar um starfsemi skólans eru aðgengilegar.
 • Starfsmenn hafa yfirsýn um skólastarfið og bera sjálfir ábyrgð á að afla sér upplýsinga sem þá varðar.
 • Starfsmenn eiga jákvæð og uppbyggjandi samskipti.
 • Starfsmenn vinna saman sem liðsheild og sýna samstarfsfólki sínu og öðrum tilhlýðilega virðingu, umburðarlyndi og jákvætt viðmót.
 • Stuðlað er að góðum stjórnunarháttum, sem m.a. felast í jákvæðu viðhorfi til samstarfsfólks og virku upplýsingastreymi.
 • Í Borgarholtsskóla eru samskipti greið og hverjum starfsmanni finnst hann vera mikilvægur hluti af heildinni.
 • Í skólanum starfar verkefnastjóri í mannauðsmálum sem hefur umsjón með málum er lúta að starfsmönnum, starfsánægju og starfsanda.

Starfsskilyrði

Í Borgarholtsskóla er séð til þess að starfsmenn hafi aðstöðu og aðbúnað til að rækja starf sitt
vel.

 • Starfsmönnum er skapað heilsusamlegt og öruggt starfsumhverfi.
 • Ákvarðanataka í skólanum er gagnsæ og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.
 • Starfsmenn fá að leggja sitt af mörkum til að félagslegt vinnuumhverfi sé gott. Ekki verður liðið að starfsmenn verði fyrir eða taki þátt í einelti og/eða kynferðislegri áreitni.
 • Starfsmenn eru hvattir til að leggja rækt við eigin heilsu og ástunda heilbrigt líferni og veitir því skólinn starfsmönnum árlega styrk til líkamsræktar.
 • Skólinn er tóbaks-, áfengis- og vímuefnalaus vinnustaður. Í því felst m.a. að óheimilt er að vera undir áhrifum áfengis og vímuefna í starfi, (sbr. 21.grein 1 70/1996). Komi í ljós að starfsmaður eigi við áfengis- og/eða vímuefnavanda að stríða ber stjórnendum og/eða samstarfsmönnum að bregðast við og leita úrlausna í samráði við skólameistara.
 • Skólinn veitir starfsmönnum styrk til endurmenntunar á þriggja ára fresti og styður þar með við sí- og endurmenntun starfsmanna.

Þagnarskylda

 • Hverjum starfsmanni er skylt að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum (sbr. 18. grein laga nr 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins). Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Starfslok

Í Borgarholtsskóla er lögð áhersla á að starfsfólk hverfi ánægt frá skólanum við starfslok.

 • Farið er að starfsmannalögum varðandi starfslok.
 • Skólinn kemur til móts við óskir starfsfólks um starfslok.
 • Viðskilnaður við skólann er með þeim hætti að starfsmaðurinn minnist þeirrar stundar með ánægju.
 • Fastráðnum starfsmönnum gefst kostur á starfslokaviðtali hjá skólameistara. Viðtalið gefur skólanum tækifæri til að draga lærdóm af ábendingum starfsmanna um það sem betur má fara í skólastarfinu.

Starfsmenn leggja sig fram um að starfa í anda einkunnarorða og samskiptareglna skólans.

Einkunnarorð BHS:

Agi - virðing - væntingar

Samskiptareglur BHS

 1. Við sýnum hvert öðru gagnkvæma virðingu.
 2. Við erum heiðarleg í samskiptum.
 3. Við hrósum fyrir það sem vel er gert.
 4. Við sýnum hlýlegt og jákvætt viðmót.
 5. Við leysum vandamálin með bros á vör.
 6. Við vinnum saman að lausn mála.
 7. Við erum stundvís.
 8. Við gagnrýnum á uppbyggilegan hátt.
 9. Við sýnum hvert öðru hjálpsemi.
 10. Við höldum boðleiðum stuttum og opnum.

12.2.2016