Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku

Í reglugerð um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku segir að framhaldsskólar skulu setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Taka þarf mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni, færni á öðrum námssviðum og kennslu og stuðningi sem veitt er.

Í reglugerðinni kveður á um rétt nemenda í framhaldsskóla, sem hafa annað móðurmál en íslensku eða hafa dvalið langdvölum erlendis og notið lítillar íslenskukennslu, til kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.

Með móttökuáætluninni er ætlað að styðja við nám nemenda og að velja námsefni við hæfi í samstarfi við náms- og starfsráðgjafa og sérkennara í íslensku. Móttökuáætlun Borgarholtsskóla tekur mið af bakgrunni nemenda, tungumálafærni og annarri námsfærni ásamt þeim úrræðum sem skólinn getur veitt.

Innritun

Nemendur innrita sig í gegnum heimasíðu Menntagáttar www.menntagatt.is. Skólastjórnendur bera ábyrgð á innritun og móttöku nýrra nemenda og tilkynna náms- og starfsráðgjöfum um innritun nemenda með annað móðurmál en íslensku. Áður en til innritunar nemenda af erlendum uppruna kemur verður dvalarleyfi að liggja fyrir. Æskilegt er að fá upplýsingar um fyrri skólagöngu, bæði frá heimalandi og/eða íslenskum skólum. Náms- og starfsráðgjafi hefur svo samband við nemendur til að boða þá ásamt foreldrum/forráðamönnum í viðtal.

Móttökuviðtal

Nemandi mætir í viðtal með forráðamönnum, náms- og starfsráðgjafa og sérkennara í íslensku. Farið er yfir stöðuna og greint frá því hvaða stuðningur er í boði.

Einstaklingsáætlun

Sérkennari í íslensku gerir áætlun fyrir hvern og einn nemanda í samráði við íslenskukennara og aðra kennara ef þarf.

Kanna hvort nemandi þurfi lengri próftíma, munnleg próf eða önnur úrræði eftir því sem við á.

Náms- og starfsráðgjöf

Æskilegt er að nemandi sé í föstum viðtalstímum hjá náms- og starfsráðgjafa.

Einingar fyrir móðurmál annað en íslensku

Kanna þarf með stöðupróf í móðurmáli. Fari nemandi í stöðupróf í móðurmáli sínu er hægt að fá einingar úr þeim prófum og þær komið í stað eininga í erlendum máli á námsbraut.


18.11.2019