Jafnréttisstefna

Jafnréttisstefnan

1. Inngangur

Í Borgarholtsskóla er kappkostað að starfsfólk ræki starfsskyldur sínar í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynja nr. 150/2020. Sú stefna sem hér er mörkuð byggir á fyrrnefndum lögum og Aðalnámskrá framhaldsskóla, almennum hluta, frá 2011.

Stuðlað er að því að hver einstaklingur nýti hæfileika sína og krafta sem best, óháð andlegu og líkamlegu atgervi, kynferði, kynhneigð, litarhætti, þjóðerni, trú, búsetu eða efnahag.

Stefna skólans er að tryggja hverjum og einum viðfangsefni og menntun við hæfi. Kynin eru metin á eigin forsendum, hafa jafna möguleika og sömu réttindi í námi, starfi og til starfsframa. Í Borgarholtsskóla er skapaður vettvangur til virkrar umræðu og vitundar um jafnréttismál.

Í Stjórnarskrá lýðveldisins segir að öll séum við jöfn fyrir lögum og njótum mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Kyn eiga að njóta jafns réttar í hvívetna.

Markmið laga um jafnan rétt og jafna stöðu kynja er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna og jafna þannig stöðu þeirra á öllum sviðum samfélagsins. Jafnframt kemur fram að allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína. Í ljósi þessa verður í stefnuskrá þessari gert ráð fyrir að kyn einskorðist ekki við kven- eða karlkyn.

2. Stefna

Stefna Borgarholtsskóla er að allir, nemendur sem og starfsfólk, njóti jafns réttar. Jafn réttur og jöfn tækifæri einstaklinga og hópa eru leiðarljós skólans og eru virt í öllu daglegu starfi og ákvörðunum. Allir njóta jafnréttis, óháð kynferði, kynhneigð og öðrum aðgreinandi þáttum.

Borgarholtsskóli virðir lagalegan og stjórnarskrárbundinn rétt allra. Þannig nýtist mannauður skólans best.

Megináherslur í jafnréttismálum eru eftirfarandi:

  • Að unnið sé gegn staðalmyndum kynjanna eins og þær birtast í orðræðu, táknum og myndmáli, innan og utan kennslustofu.
  • Að starfsfólk, óháð kyni, hafi jöfn tækifæri til starfa, stjórnunar, starfsþróunar og endurmenntunar. Nemendur, óháð kyni, hafi jafna möguleika til náms.
  • Að hlutfall kynja meðal starfsfólks sé jafnt og að jafna hlutfall kynja meðal nemenda á öllum sviðum skólans.
  • Að ekkert starf eða nám sé kynjað og að kynin njóti sömu kjara fyrir jafn verðmæt störf.
  • Að nemendum sé gert kleift að samræma nám og einkalíf.
  • Að starfsfólki sé gert kleift að samræma starf og einkalíf.
  • Að einelti, fordómar, ofbeldi, kynbundin eða kynferðisleg áreitni og hverskonar kúgun og niðurlæging séu aldrei liðin.

3. Jafnréttisnefnd

Hlutverk jafnréttisnefndar er að kanna stöðu jafnréttismála, kynna niðurstöður og fylgja eftir aðgerðaráætlunum. Jafnframt er hlutverk hennar að yfirfara og viðhalda jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun í samráði við skólastjórnendur. Jafnréttisnefnd hefur frumkvæði að fræðslu um jafnréttismál og skal bregðast við ef upp koma atvik sem stríða gegn jafnréttisstefnunni.

Skólastjórnendur, í samráði við kennarafélag og fulltrúa starfsfólks, skipa í nefndina á þriggja ára fresti. Í nefndinni skal sitja fulltrúi stjórnenda, fulltrúi kennara og fulltrúi annars starfsfólks. Tveir sjálfboðaliðar úr hópi nemenda í KYN2A05 eru fulltrúar nemenda og eru þeir skipaðir til eins skólaárs í senn. Leitast er við að hafa jafnt hlutfall kynja í nefndinni.

Telji starfsmanneskja eða nemandi að reglur um jafnrétti séu brotnar innan skólans getur viðkomandi leitað til jafnréttisnefndar.

Jafnréttisnefnd getur lagt til við skólameistara að ráðin verði fóstra/fóstri jafnréttismála. Hlutverk fóstru/fóstra er að hafa eftirlit með framkvæmd jafnréttisáætlunar, taka þátt í skipulagningu viðburða sem tengjast málaflokknum, vera til viðtals vegna brota á reglum um jafnrétti og vera jafnréttisnefnd til stuðnings. Fóstra/fóstri jafnréttismála situr reglulega fundi jafnréttisnefndar og mótar starf sitt í samráði við hana.

4.1. Gegn staðalmyndum

Mikilvægt er að vinna gegn staðalmyndum kynjanna og jaðarsettra hópa eins og þær birtast bæði í orðræðu og myndmáli. Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í Borgarholtsskóla. Með því móti er tekið á staðalmyndum með fyrirbyggjandi hætti og á breiðum grunni.

Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.

Í samræmi við landslög fá nemendur Borgarholtsskóla kerfisbundna jafnréttisfræðslu. Jafnréttisnefnd stendur fyrir reglubundinni fræðslu fyrir starfsfólk.

4.2 Jöfn hlutföll og tækifæri

Starfsfólk skal hafa jöfn tækifæri til starfa, stjórnunar, starfsþróunar og endurmenntunar. Nemendur skulu hafa jafna möguleika til náms óháð kyni og öðrum aðgreinandi þáttum. Tiltekið nám og tiltekin störf flokkast ekki samkvæmt hefðbundinni tvíhyggju sem sérstök karla- eða kvennastörf. Hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, er óheimil. Þó kunna sértækar aðgerðir að vera nauðsynlegar tímabundið, t.d. þar sem veruleg kynjaskekkja er til staðar.

Áherslu ber að leggja á að kynin eigi sem víðtækasta og jafnasta möguleika. Hvergi í skólastarfinu, í inntaki né starfsháttum, ættu að vera hindranir í vegi kynjanna. Mikilvægt er að í öllu skólastarfi, jafnt í kennslustundum sem í öllum samskiptum, séu ákvæði jafnréttislaga höfð að leiðarljósi.

Skólastjórnendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að kynin njóti sömu möguleika til menntunar, símenntunar og starfsþjálfunar. Starfsfólk hafi jöfn tækifæri til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi.

4.3 Sömu kjör

Kyn hefur ekki áhrif á launasetningu starfsfólks Borgarholtsskóla. Skólinn býður kynjunum sömu kjör fyrir jafnverðmæt störf. Virkja skal jafnlaunavottun innan skólans.

4.4 Samræming vinnu og einkalífs

Í Borgarholtsskóla geta nemendur og starfsfólk samræmt nám, störf og einkalíf. Fólki er gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna fólks og þarfa skólasamfélagsins. Starfsfólki og nemendum skal t.a.m. auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.

Við setningu reglna um skólasókn skal taka sérstakt tillit til langveikra nemenda og nemenda sem eru tímabundið fjarverandi frá skóla vegna veikinda eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum.

4.5 Gegn einelti og áreitni

Í Borgarholtsskóla eru einelti, kynferðiseinelti, fordómar, kynbundin eða kynferðisleg áreitni og ofbeldi ekki liðin undir neinum kringumstæðum. Skólastjórnendur skulu gera sérstakar ráðstafanir og bera ábyrgð á að koma í veg fyrir að starfsfólk og nemendur verði fyrir slíku í skólanum og á viðburðum á vegum hans.

4.6 Almennar aðgerðir og eftirfylgni

Á grundvelli jafnréttisstefnunnar er gerð aðgerðaáætlun til tveggja ára. Jafnréttisnefnd gerir úttekt á stöðunni að þeim tíma liðnum og gerir skólastjórnendum grein fyrir þróun mála. Endurskoðuð áætlun byggir á þeirri úttekt.

5. Aðgerðaáætlun

Stefna Borgarholtsskóla í jafnréttismálum grundvallast á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Stefna skólans raungerist í aðgerðum sem unnar verða reglubundið og í samræmi við tiltekna mælikvarða.

Aðgerðabundin jafnréttisáætlun endurskoðuð á tveggja ára fresti. Jafnréttisnefnd ber ábyrgð á endurskoðun áætlunarinnar og metur árangur þeirra aðgerða sem áætlunin kveður á um að ráðist sé í á hverju tímabili. Áætlun er birt á heimasíðu skólans.

14.4.2021