Meðferð eineltismála

Einelti er ekki undir neinum kringumstæðum liðið í Borgarholtsskóla

Ferli eineltismála - nemendur
Ferli eineltismála - starfsmenn

Birtingarmyndir eineltis:

Einelti birtist á marga vegu og til eru mismunandi tegundir eineltis. Birtingarmyndir eineltis í framhaldsskólum eru aðallega af andlegum og félagslegum toga.

Dæmi um birtingarmyndir eineltis:

Andlegt og félagslegt einelti felur í sér að skilja einhvern útundan, hunsa og/eða neita um aðgang að samfélagi jafninga sinna. Það felst einnig í því að ógna eða hæða með orðum og tjá niðrandi og/eða særandi athugasemdir um viðkomandi. Einelti er einnig hægt að sýna án notkunar orða eða líkamlegra athafna til dæmis með því að útskúfa einstakling úr hóp eða neita honum um aðgang með notkun ljótra merkja/bendinga eða með því að virða ekki óskir annarra.

Rafrænt einelti er skilgreint sem einelti þar sem ný upplýsinga- og samskiptatæki og þjónusta er notuð til að stríða, áreita eða ógna einstaklingi eða hópi. Vefpóstur, spjall, snarskilaboð, farsímar og önnur stafræn tækni geta nýst í þessum tilgangi. Rafrænt einelti hefur aukist með breyttu samskiptaformi og getur oft verið mjög dulið.

Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, munnleg eða táknræn athugasemd og/eða spurning um kynferðisleg málefni. Um er að ræða kynferðislega hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður.

Líkamlegt einelti er líkamleg áreitni sem er augljósasta formið af einelti, svo sem að slá, sparka og hrinda. Líkamleg áreitni getur einnig falið í sér sýnilegar skemmdir t.d á eignum og fatnaði.

Stefna skólans:

Einelti og kynferðisleg áreitni er ekki liðið við Borgarholtsskóla. Komi upp grunur um einelti innan skólans er tekið á þeim málum og er það sett í ákveðið ferli (sjá viðbragðsáætlun).

Markmið eineltisáætlunar:

 • að til sé skilvirkt ferli sem fylgt er þegar upp koma ábendingar um hugsanlegt eða staðfest einelti
 • að ferli eineltismála sé öllum þeim sem að skólasamfélaginu koma ljóst og upplýsingar um það séu aðgengilegar
 • að vera forvarnaráætlun
 • að stuðla að jákvæðum samskiptum

Skilgreining á einelti:

Einelti er ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni (til dæmis líkamleg, orðabundin eða táknræn athugasemd eða spurningar um kynferðisleg málefni) og annað endurtekið andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Mikilvægt er að hafa í huga að allir geta orðið fyrir einelti.  Sérhver þolandi verður að meta hvaða framkomu hann umber og frá hverjum.

Vísbendingar um einelti:

Verði breytingar á líðan og hegðun einstaklings ber að skoða hvort hugsanlegt sé að viðkomandi upplifi einelti í sinn garð. Afleiðingar geta lýst sér sem almenn vanlíðan og því mikilvægt að ræða við hlutaðeigandi um hvað hann telji að valdi breyttri líðan eða hegðun. Líkamleg og sálræn einkenni geta komið fram og þróast út í mjög alvarleg einkenni sé ekkert að gert.

 Sálræn viðbrögð:

 • kvíði eða þunglyndi
 • miklar skapsveiflur
 • ótti eða örvænting
 • minnimáttarkennd eða minnkað sjálfsálit
 • andúð á skóla eða vinnu
 • félagsleg einangrun eða öryggisleysi
 • biturð eða hefndarhugur
 • sjálfsvígshugleiðingar

 Líkamleg viðbrögð:

 • svefnleysi eða svefnórói
 • höfuðverkur eða vöðvabólga
 • maga- og meltingartruflanir
 • hjartsláttartruflanir, skjálfti eða svimi
 • þreytutilfinning eða sljóleiki

 Breytingar á hegðun:

 • aðgerðarleysi, eirðarleysi, svefnleysi
 • minni afköst
 • félagsfælni
 • veikindafjarvistir
 • tal um að yfirgefa skóla eða vinnustað

Ofangreind einkenni eru nokkurs konar viðvörunarmerki sem fylgjast ber með. Einkennin geta verið tímabundin en þau geta einnig orðið þrálát ef ástandið er alvarlegt og langvinnt. Sumir þolendur fá svo alvarleg álagseinkenni að þeir treysta sér ekki til að vera í skóla eða vinnu.

Hafa ber í huga að það er ekki einungis sá sem verður fyrir eineltinu sem skaðast. Fjölskylda þolanda finnur oft fyrir miklu álagi þar sem afleiðingar eineltis geta haft svo víðtæk áhrif. Þar sem einelti er látið viðgangast í skóla eða á vinnustað getur það einnig haft umtalsverð áhrif á þá sem þar starfa og mótað þann vinnuanda sem  ríkir. Það er því ábyrgð allra þeirra sem verða varir við einelti af einhverju tagi að koma ábendingum þar um til réttra aðila svo að hægt sé að vinna með málið.

Sjá má upplýsingar um einelti hér:
http://www.vinnueftirlit.is/media/fraedslu--og-leidbeiningarit/einelti_og_kynferdisleg_vef.pdf


Vinnureglur / viðbragðsáætlun í eineltismálum:

Í Borgarholtsskóla sýna nemendur og starfsmenn hvert öðru alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum umborin í skólanum.

Viðbragðsáætlun – nemendur

 1.  Vitneskja berst um einelti í skólanum til starfsfólks skólans. Ávallt skal gæta trúnaðar í meðferð eineltismála.
 2. Náms- og starfsráðgjafa er gerð grein fyrir málinu.
 3. Náms- og starfsráðgjafi greinir málið samkvæmt skilgreiningu skólans á einelti. Hann skráir ábendingar niður og aflar upplýsinga. Náms- og starfsráðgjafi ákveður næstu skref eftir eðli málsins.
 4. Ef náms- og starfsráðgjafi metur að um einelti sé að ræða hefur hann samband við aðila málsins, nemendur og/eða forráðamenn nemenda undir 18 ára aldri. Farið er yfir:
  Allt ferlið er skráð af náms- og starfsráðgjafa og forráðamenn eru einnig hvattir til að skrá hjá sér málsatvik.
  • hver tilboð skólans eru til að aðstoða þolanda og geranda/gerendur
  • hvað forráðamenn geta gert til aðstoðar barni sínu og skólanum og hver ábyrgð þeirra er í meðferð eineltismála
  • samstarf forráðamanna og náms- og starfsráðgjafa um eftirfylgd málsins.
 5.  Náms- og starfsráðgjafi gerir viðkomandi kennurum, skólastjórnendum og öðru starfsfólki grein fyrir stöðu mála, sé þess þörf.
 6.  Ef ofangreindar aðgerðir bera ekki árangur að mati náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda þá koma eftirtalin úrræði til greina:
  • viðurlög
  • viðtöl við forráðamenn
  • láta gerandann breyta um umhverfi
  • tilkynna um eineltið til lögreglu

 Viðbragðsáætlun – starfsfólk:

 1.  Vitneskja berst um einelti á vinnustað til starfsfólks skólans. Ávallt skal gæta trúnaðar í meðferð eineltismála.
 2. Meintur þolandi eða þriðji aðili leggur fram kvörtun / ábendingu til jafnréttistrúnaðarmanns eða skólameistara.
 3. Jafnréttistrúnaðarmaður vinnur úr málinu. Ef málið leysist ekki fer það til skólameistara.
 4. Skólameistari vinnur úr málinu.
 5. Skólameistari ræðir við meintan þolanda og geranda og aðra sem geta veitt upplýsingar um málið.
 6. Málsaðilar gera sáttaumleitan sín á milli og málið er leyst innan skólans.
 7. Ef ofangreindar aðgerðir bera ekki árangur að mati skólameistara þá koma eftirtalin úrræði til greina:    
  • einelti tilkynnt til Vinnueftirlitsins
  • aðstoð fengin frá utanaðkomandi sérfræðingi í eineltismálum
  • leita aðstoðar og ráðgjafar hjá viðkomandi stéttarfélagi
  • máli vísað til lögreglu

 Forvarnir:

Áhersla á jákvæð samskipti í skólasamfélaginu og skýr stefna um að einelti sé ekki liðið er lykilþáttur í forvörnum

 • Mikilvægt er að miðla þekkingu og efla meðvitund um einelti, t.d. með fyrirlestrum og beintengingu við námsefni.
 • Mikilvægt er að starfsfólk sé vakandi fyrir einelti og öðrum neikvæðum samskiptum og bregðist við á viðeigandi hátt.
 • Skýr stefna skólans um að einelti sé ekki liðið sé kynnt öllum nemendum og starfsfólki.
 • Áhersla á jákvæð samskipti í skólasamfélaginu, mikilvægt að efla vitund allra og að slíkt sé einkennandi í öllu starfi skólans. Umræður og verkefni um jákvæð samskipti séu eðlilegur hluti af skólastarfi.
 • Stuðlað sé að fjölbreyttu og heilbrigðu félagslífi nemenda og starfsfólks.
 • Unnið sé að því að skapa öruggt, jákvætt og hvetjandi námsumhverfi.

17.12.2013