Stefnur og áætlanir

Stefnuskráin

Stefnuskrá Borgarholtsskóla

-Janúar 2016-

Í Borgarholtsskóla er lögð rækt við bókmennt, handmennt og siðmennt.

- Þitt er menntað afl og önd,
eigirðu fram að bjóða:
hvassan skilning, haga hönd,
hjartað sanna og góða.
                    Stephan G. Stephansson

Einkunnarorð Borgarholtsskóla eru agi, virðing, væntingar.

STAÐA OG STYRKUR

Borgarholtsskóli er fjölbreyttur, skapandi og framsækinn skóli sem mætir þörfum breiðs nem-endahóps. Í Borgarholtsskóla geta flestir fundið nám við hæfi.

Í boði eru fjórar stúdentsprófsbrautir: félags- og hugvísindabraut, náttúrufræðibraut,  viðskipta- og hagfræðibraut og listnámsbraut. Annað nám er verknám á sviði málm- og bíliðngreina, starfsnám við félagslega þjónustu, nám til framhaldsskólaprófs, nám fyrir afreksfólk í íþróttum og námsbraut fyrir fatlaða nemendur.

Framtíðarsýn skólans er skýr. Skólinn er trúr upphaflegum markmiðum sínum, býður fjölbreytt nám í hæsta gæðaflokki fyrir breiðan hóp nemenda og notar til þess viðurkennd gæðaviðmið. Borgarholtsskóli er í tengslum við nærsamfélagið, aðliggjandi skólastig og atvinnulífið og sinnir með þeim hætti breytilegum þörfum margra. Umhverfisvitund, heilsuefling og vitund um mikilvægi sjálfbærrar þróunar er sterk meðal starfsmanna og nemenda skólans sem státar af grænfána Landverndar. Borgarholtsskóli er stoltur handhafi Gulleplis landlæknisembættisins fyrir framúrskarandi árangur í verkefninu Heilsueflandi skóli. Innan skólans er grannt fylgst með tækninýjungum, boðið er upp á besta búnað sem völ er á hverju sinni með það að markmiði að skila vel menntuðu fólki út í atvinnulíf og framhaldsnám. Nýsköpun er í hávegum höfð og unnið er að því að auka vægi hennar á brautum skólans. Jafnframt er lögð áhersla á skólaþróun og fagmennsku kennara. Skólinn er þátttakandi í erlendum samstarfsverkefnum. Leitast er við að styrkja góðan starfsanda svo að skólinn verði hér eftir sem hingað til eftirsóttur vinnustaður.

Borgarholtsskóli starfar nú eftir nýrri námskrá. Áhersla er lögð á grunnþætti menntunar, fjölbreytta kennsluhætti og námsmat sem og heilsueflingu. Skólinn vinnur að aukinni skilvirkni náms og árangur þegar sýnilegur. Skólinn gerir öllu námi jafnhátt undir höfði.

Skólahúsnæðið er glæsilegt. Eigi að síður er nauðsynlegt að laga það að breyttum kröfum kennslu og náms.  Sóknarfæri skólans nú liggja ekki síst í því að bregðast við breyttum þörfum samfélagsins og fólks sem vill geta stundað nám óháð búsetu, atvinnu eða öðrum ástæðum. Til þess eru nýttir kostir dagskóla og dreifnáms. Innleiðing nýrra námskosta byggist á sveigjanlegu kennsluformi.

Þessi stefnuskrá snýst um menntun í víðum skilningi. Þótt stöðugt þurfi að meta og endurmeta árangur skólastarfs verður menntun aldrei vegin og metin til fulls á hlutlægan mælikvarða því hún er í reynd ómetanlegt dýrmæti.

HLUTVERK

Borgarholtsskóli starfar samkvæmt aðalnámskrá og lögum um framhaldsskóla og öðrum lögum og reglugerðum sem varða starfsemi framhaldsskóla. Í skólanum er leitast við að efla alhliða þroska allra nemenda og búa þá undir virka þátttöku í fjölbreyttu nútímasamfélagi, störf í atvinnulífi og áframhaldandi nám.

Borgarholtsskóli hefur að leiðarljósi grunnþætti menntunar: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.

Í skólanum er leitast við að mæta ólíkum áhugasviðum og hæfileikum nemenda, víkka sjóndeildarhring þeirra, styrkja gagnrýna og skapandi hugsun, leggja rækt við persónulegan þroska og siðgæðisvitund og efla mannskilning, tillitsemi og virðingu fyrir fólki og umhverfi.

GRUNNGILDI

Grunngildi Borgarholtsskóla eru jafnrétti, sköpun, sjálfsagi, framsækni og náungakærleikur.   

Starfið við Borgarholtsskóla er framsækið og skapandi. Starfsemin byggist á jafnrétti og náungakærleika en gerir um leið  kröfur um sjálfsaga.

Jafnrétti

Jafn réttur og jöfn tækifæri einstaklinga og hópa eru leiðarljós skólans og virt í öllu daglegu starfi og ákvörðunum. Allir njóta jafnréttis, óháð andlegu og líkamlegu atgervi, kynferði, kynhneigð, litarhætti, þjóðerni, trú eða efnahag. Þannig virðir Borgarholtsskóli lagalegan og stjórnarskrárbundinn rétt allra.

Sköpun

Afrek mannsins, hugsanir hans og gerðir eru merki um skapandi mátt sem nýta má til uppbyggingar og framfara. Borgarholtsskóli hlúir að skilyrðum til að leysa skapandi mátt einstaklingsins úr læðingi og kennir honum mikilvægi frumkvæðis, áræðni og sjálfsgagnrýni í sköpunarferlinu.

Sjálfsagi

Með því að beina hugsunum og gerðum skipulega í átt að tilteknu markmiði náum við árangri. Borgarholtsskóli býður upp á menntun og umhverfi sem örvar skipulagshæfni einstaklingsins og hvetur hann til að ná settum markmiðum af eigin rammleik.

Framsækni 

Með framsæknum huga og athöfnum mótum við framtíðina en bíðum ekki eftir henni.  Menntun í Borgarholtsskóla miðar að framsækni á öllum sviðum, framförum, lífsfyllingu og velgengni.

Náungakærleikur

Við berum umhyggju hvert fyrir öðru og sýnum hvert öðru gagnkvæma virðingu í öllum samskiptum. Velferð eins er háð því hvernig öðrum gengur. Í Borgarholtsskóla komum við fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur.

NEMANDINN OG VELFERÐ HANS

Framtíðarsýn

Í Borgarholtsskóla er nemandinn í fyrirrúmi. Nemendur hafa ólíkar og fjölbreyttar þarfir og er það kappsmál að veita hverjum og einum þá þjónustu sem honum ber. Námsframboð er fjölbreytt, starfsfólk hæft og vel menntað, félagslíf fjölbreytt, tækjabúnaður og aðstaða góð og húsnæði hreint og snyrtilegt. Skólabragur er jákvæður og andleg, líkamleg og félagsleg velferð nemenda höfð að leiðarljósi.  Áhersla er lögð á heilsusamlega umgjörð um skólastarfið.

Markmið

Til þess að stuðla að velferð nemenda Borgarholtsskóla verður unnið með eftirfarandi þætti:

Andleg, líkamleg og félagsleg vellíðan

 • Skólinn mennti nemendur til heilbrigðra lífshátta og skapi umhverfi og aðstæður sem taka mið af því, m.a. með öflugu forvarnastarfi.
 • Vitund um andlega, líkamlega og félagslega vellíðan verði efld.
 • Nemendur hafi ávallt aðgang að hollri, góðri og fjölbreyttri næringu.
 • Tryggt sé að aðstaða til íþróttaiðkunar og líkamsræktar verði aðgengileg nemendum.
 • Vinnuálag á nemendur sé hóflegt og þeir upplýstir um hagnýtar aðferðir til að draga úr streitu.

Umsjónar- og stoðkerfi

 • Nemendur hafi aðgang að öflugri þjónustu umsjónarkennara, þar sem nemendum og kennurum er ljós ábyrgð sín, réttindi og skyldur.
 • Umsjónarkennarar fylgist með ferli umsjónarnema sinna og hafi frumkvæði að samskiptum við nemendur og forráðamenn.
 • Boðið sé upp á fjölbreytta og öfluga stuðningsþjónustu.
 • Þróaðir verði verkferlar sem ná til flestra mála sem upp kunna að koma í samskiptum nemenda, forráðamanna og starfsfólks.
 • Skólinn státi af öflugu stoð- og þjónustukerfi sem veitir nemendum og forráðamönnum þeirra úrvals þjónustu á hverjum tíma. Stoðkerfið þróist í samræmi við þarfir nemenda og kennara.

Félagslíf og félagsstarf    

 • Stutt sé dyggilega við bakið á félagslífi nemenda með því að skapa því aðstöðu innan veggja skólans og aðstoða við framkvæmd góðra hugmynda nemenda. Starfandi er sérstakt félags- og forvarnateymi.
 • Starf foreldraráðs verði stutt. Ráðinu verði skapað svigrúm fyrir starfsemi sína og aðgengi þess að starfsfólki skólans tryggt.
 • Aðkoma nemenda og forráðamanna að skólastarfinu verði aukin með því að skipuleggja reglulega fundi í samráði við nemendafélag og foreldraráð.

Mælikvarðar

Til að leggja mat á árangur af stefnu Borgarholtsskóla um nemandann og velferð hans verða eftirfarandi mælikvarðar notaðir:

 • Brotthvarf nemenda úr námi og brotthvarf úr einstökum áföngum.
 • Viðhorfskannanir meðal nemenda í tengslum við innra og ytra mat.
 • Kennslukannanir í einstökum áföngum.
 • Fjöldi starfslýsinga fyrir störf sem lúta að þjónustu við nemendur.
 • Árangur af þátttöku í verkefnum sem lúta að velferð nemenda, t.d. verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli.
 • Fjöldi funda þar sem nemendur og forráðamenn hafa beina aðkomu.
 • Fjöldi viðburða í félagslífi nemenda.
 • Fjöldi veikindadaga nemenda.
 • Niðurstöður könnunar Rannsóknar og greiningar (Ungt fólk).

NÁM OG KENNSLA

Framtíðarsýn

Í Borgarholtsskóla eru öllum nemendum tryggð jöfn tækifæri til góðrar menntunar sem og námsleiðir við hæfi hvers og eins. Kennsluhættir og námsmat eru fjölbreytt og  nemendur hvattir til að bera ábyrgð á eigin námi.

Kostir upplýsingatækni og fjarkennslu eru nýttir og nemendur í iðn- og starfsnámi fá fjölbreytta þjálfun á vettvangi. Lögð er áhersla á námsástundun, námsframvindu og að draga úr brotthvarfi. Á öllum námsbrautum eru grunnþættir menntunar hafðir í heiðri: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Miðlun upplýsinga er skilvirk og áreiðanleg og eru nemendur vel upplýstir um kröfur sem gerðar eru til þeirra.

Markmið

Til þess að nám og kennsla við Borgarholtsskóla sé til fyrirmyndar verður unnið með eftirfarandi þætti:

Ábyrgð, þátttaka og jöfn tækifæri

 • Lögð verði áhersla á að tryggja öllum nemendum jöfn tækifæri til góðrar menntunar og bjóða fjölbreyttar námsleiðir í öflugu námssamfélagi.
 • Nemendum séu ljósar kröfur um námsárangur og námsframvindu þar sem lögð er jöfn áhersla á þekkingu, leikni og hæfni.
 • Grunnþættir menntunar verði hafðir að leiðarljósi við skipulag náms á öllum námsbrautum.
 • Tryggt verði aðgengi nemenda og forráðamanna að upplýsingum um einstaka áfanga og námið í heild og að nemendur njóti stuðnings í námi sínu. Í þessu skyni er m.a. lögð áhersla á markvissa notkun og þróun námsumsjónarkerfis BHS, skólaupplýsingakerfa og heimasíðu skólans sem og öfluga náms- og starfsráðgjöf.

Gæði náms og kennslu

 • Stöðugt verði leitað leiða til að auka gæði náms og kennslu. Fjölbreyttar náms-, kennslu- og námsmatsaðferðir verði í fyrirrúmi og hvatt til starfsrannsókna.
 • Hvatt verði til nýsköpunar í kennslu, fjölbreyttra kennslu- og námsmatsaðferða og þverfaglegs samstarfs.
 • Fagleg sjónarmið verði höfð að leiðarljósi við ákvörðun fjölda nemenda í námshópum.
 • Formlegt mat á kennslu með könnunum verði eflt og því fylgt eftir í ljósi niðurstaðna.
 • Fjölbreytt þróunarverkefni og starfsrannsóknir verði hluti af framsækinni skólaþróun.
 • Stuðlað verði að endurmenntun kennara.
 • Upplýsingatækni verði hagnýtt eins og kostur er í starfi skólans. Lögð verði áhersla á upplýsingalæsi í námi og kennslu.
 • Vegferð útskrifaðra nemenda verði markvisst könnuð í því skyni að meta gæði og árangur kennslu og skólastarfs.
 • Námsframboð sé þróað í tengslum við önnur skólastig og atvinnulíf.

Tengsl við önnur skólastig  

 • Skólinn hafi frumkvæði að samskiptum við aðliggjandi skólastig í því skyni að stuðla að sem mestri samfellu í skólagöngu nemenda í samræmi við ríkjandi menntastefnu eins og hún birtist í sameiginlegum hluta aðalnámskráa leik-, grunn- og framhaldsskóla.
 • Rík áhersla verði lögð á að kynna námsframboð skólans fyrir nemendum grunnskóla.
 • Samskipti við háskóla landsins verði efld með því að efna reglulega til samræðu við fulltrúa þeirra um sameiginleg málefni og áhersluþætti.        

Mælikvarðar

 • Til að leggja mat á árangur af stefnu Borgarholtsskóla um nám og kennslu verða eftirfarandi mælikvarðar notaðir:
 • Hlutfall kennara sem afla sér aukinnar menntunar.
 • Fjöldi  náms- og kennslukannana,  auk fjölda umbóta og aðgerða í kjölfar þeirra.
 • Fjöldi áfanga sem settir eru upp á námsþingi.
 • Hlutfall áfanga þar sem beitt er fjölbreyttum aðferðum við námsmat og fjöldi námsmatsaðferða.
 • Hlutfall nemenda sem heldur áfram námi eftir útskrift úr BHS.
 • Fjöldi kynninga fyrir grunnskólanema.
 • Hlutfall áfangalýsinga þar sem greinileg tengsl við grunnþætti menntunar koma fram.
 • Fjöldi nemenda sem nýtir sér þjónustu bókasafnsins.
 • Fjöldi kennara sem nýtir sér bókasafnið til verkefnavinnu með nemendum.
 • Fjöldi nemenda í hópum.
 • Fjöldi þróunarverkefna og starfsrannsókna.

MANNAUÐUR OG SKÓLABRAGUR

Framtíðarsýn

Jákvæður skólabragur er aðalsmerki Borgarholtsskóla. Samskipti fólks einkennast af gagnkvæmri virðingu; samvinna, gleði og eftirvænting einkenna daglegt starf. Hlúð er að mannauði skólans með því að skapa bestu skilyrði fyrir velferð, vellíðan og heilbrigði allra. Í því skyni er lögð áhersla á heilnæm starfsskilyrði, starfsumhverfi og menntun til heilbrigðis; hver og einn fær tækifæri til að nýta hæfileika sína til fulls. Starfsfólk og nemendur njóta styrkrar forystu, hvatningar og stuðnings. Lýðræðisleg vinnubrögð, sem stuðla að samræðu, jafnræði og gagnsæi, eru í hávegum höfð.

Markmið

Til þess að stuðla að jákvæðum og heilbrigðum skólabrag í Borgarholtsskóla verður unnið með eftirfarandi þætti:

Samskipti, samstarf og samkennd

 • Skólabragurinn einkennist af gagnkvæmri virðingu starfsfólks og nemenda, virðingu fyrir manngildi og fjölbreytileika.
 • Starfsfólk og nemendur njóti jafnræðis óháð starfi og stöðu.
 • Lögð verði áhersla á metnað, skapandi starf, fagmennsku og starfsgleði.
 • Samskiptahættir stuðli að jákvæðri sjálfsmynd, ábyrgð og félagslegri hæfni.
 • Allir finni að þeir séu velkomnir í skólann og njóti virðingar og velvildar.
 • Nemendur komi í auknum mæli að ákvarðanatöku um mál sem þá varða.
 • Félagslíf nemenda njóti stuðnings og hvatt sé til þátttöku starfsfólks í viðburðum.
 • Nýir starfsmenn séu leiddir skipulega inn í skólastarfið.
 • Samstarf nemenda og kennara þvert á svið og námsgreinar verði eflt og sterk liðsheild sköpuð í skólanum.
 • Tillit verði tekið til aðstæðna starfsfólks og nemenda þegar erfiðleikar steðja að.

Gæðamál og eftirfylgni

 • Verkferlar, starfslýsingar, áætlanir og stefnuatriði séu skýr og uppfærð reglulega.
 • Samskiptaleiðir verði skilgreindar og upplýsingaflæði innan skólans tryggt.
 • Ákvarðanir séu gagnsæjar og starfshættir skólans lýðræðislegir.
 • Starfsfólk hafi tækifæri til að ræða starf sitt og hafa áhrif á starfsemi skólans.
 • Skólinn styðji við sí- og endurmenntun starfsfólks og hvetji til starfsþróunar.

Umgengni og aðbúnaður

 • Starfsfólk og nemendur leggi sig fram um að halda húsnæði hreinu og snyrtilegu og stuðli að heilnæmu starfsumhverfi.
 • Starfsaðstæður uppfylli ýtrustu kröfur um aðbúnað við nám og kennslu.

Mælikvarðar

Til að leggja mat á árangur af stefnu Borgarholtsskóla um mannauð og skólabrag verða eftirfarandi mælikvarðar notaðir:

 • Tíðni starfsþróunarsamtala auk fjölda umbóta og aðgerða í kjölfar þeirra og ánægja starfsmanna með árangurinn.
 • Niðurstöður og eftirfylgni kannana meðal starfsmanna um líðan og viðhorf til starfs og vinnustaðar.
 • Starfsmannavelta.
 • Fjöldi verkferla og starfslýsinga.
 • Hlutfall starfsmanna sem sækir sér endur- eða símenntun.
 • Hlutfall starfsmanna með meistarapróf og aðra framhaldsmenntun.
 • Fjöldi ákvarðanatökuferla þar sem nemendur taka þátt.
 • Endurmenntunarsjóður og umsóknir í hann.
 • Mælikvarði á jafnrétti.
 • Fjöldi og tíðni upplýsingarita.
 • Verkefnastjóri mannauðsmála starfar við skólann.

ÁBYRG SAMFÉLAGSÞÁTTTAKA

Framtíðarsýn

Starfsfólk og nemendur Borgarholtsskóla eru meðvitaðir um skyldur sínar og mikilvægi virkrar samfélagslegrar þátttöku í nær- og fjærsamfélagi. Skólinn er fjölbreytt samfélag þar sem allir fá að njóta hæfileika sinna óháð félagslegum og menningarlegum bakgrunni. Almenn menntun nemenda við Borgarholtsskóla miðar að læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti og sköpun. Þessir grunnþættir menntunar gera einstaklinginn hæfari í daglegu lífi og til þátttöku í samfélaginu.

Markmið

Til þess að hvetja til samfélagsþátttöku nemenda og starfsfólks Borgarholtsskóla verður unnið með eftirfarandi þætti:

Samfélag og umhverfi

 • Borgarholtsskóli taki í auknum mæli þátt í nærsamfélaginu og verði um leið hlutgengur þátttakandi í alþjóðasamfélaginu. Þannig gætir áhrifa hans víða.
 • Nemendur verði búnir undir samfélagslega þátttöku og verði þannig hæfir til að  stjórna lífi sínu í samræmi við eigin væntingar og þarfir samfélagsins.
 • Starfsfólk og nemendur fái tækifæri til að móta skólaumhverfið.
 • Rekstur skólans byggist á nútímalegum stjórnunarháttum þar sem áhersla er lögð á skilvirkni og gagnsæi.
 • Sjálfbærni verði meginviðmið á öllum sviðum skólans með ábyrgri og markvissri þátttöku alls skólasamfélagsins.
 • Samskipti við útskrifaða nemendur og aðra hollvini skólans verði efld.

Menntun og menning

 • Borgarholtsskóli verði lifandi mennta- og menningarsetur.
 • Skólinn verði í virku samstarfi við mennta- og menningarstofnanir innan lands og utan.
 • Lögð verði áhersla á að flétta saman nám og siðferði, efla dómgreind og þjálfa gagnrýna hugsun og virka þátttöku allra.
 • Markvisst verði unnið að því að efla tjáskiptahæfni og læsi nemenda í víðum skilningi.
 • Allir nemendur geti tjáð viðhorf sín og talað máli sínu til að geta tekið þátt í lýðræðislegu samstarfi.

Atvinnulífið

 • Borgarholtsskóli skili vel menntuðum einstaklingum út í atvinnulífið.
 • Skólinn efli samstarf við fyrirtæki og einstaklinga í atvinnulífinu.

Mælikvarðar

Til að leggja mat á árangur af stefnu Borgarholtsskóla um ábyrga samfélagslega þátttöku verða eftirfarandi mælikvarðar notaðir:

 • Fjöldi viðburða á vegum skólans sem tengja hann samfélaginu nær og fjær; s.s. samskipti við lögreglu, kirkju, heilsugæslu og grunnskóla í hverfinu.
 • Fjöldi áfangalýsinga þar sem skýrt kemur fram hvernig grunnþáttum menntunar er sinnt.
 • Sérstöku ljósi sé brugðið á einn grunnþátt menntunar á hverri önn.
 • Fjöldi þátttakenda í samstarfsverkefnum.
 • Fjöldi kynninga og frétta um starfsemi skólans.
 • Fjöldi samstarfsverkefna við atvinnulífið, mennta- og menningarstofnanir og aðra aðila, innlenda og erlenda.
 • Tíðni samskipta við hollvini.

FRAMKVÆMD STEFNUNNAR

Stefna Borgarholtsskóla felur í sér skyldur og tækifæri til að gera góðan skóla enn betri.

Borgarholtsskóli kennir eftir nýrri námskrá sem tók gildi haust 2015. Námskráin er í samræmi við þessa stefnuskrá og byggir á henni. Gerðar hafa verið nýjar brautarlýsingar, áfangalýsingar og aðrir hluta skólanámskrár. Fyrsta ár námskrárinnar er komin í framkvæmd.
Gæðakerfi skólans endurspeglar starfsemina  og einfaldar framkvæmdina.

Yfirstjórn skólans hefur leitt umbreytinguna ásamt stýrihópi og skapar aðstæður til að raungera stefnuna. Kennslustjórar, hver á sínu sviði, hafa það hlutverk að stjórna innleiðingarferlinu í samræmi við stefnu skólans um leið og sértæk stefna hvers kennslusviðs er mótuð. Kennarar hafa tækifæri til að móta kennsluhætti og námsmat í samræmi við breytingarferlið með það að markmiði að auðvelda nemendum að öðlast tilskilda þekkingu, leikni og hæfni.

Árangur af framkvæmd stefnunnar á allt undir því að starfsfólk Borgarholtsskóla taki  sameiginlega ábyrgð á henni og grípi þau tækifæri sem bjóðast í breyttu skólasamfélagi.

Forsendur framkvæmdarinnar og starfsmarkmið skólans, sem endurspegla stefnuna á hverjum tíma, byggjast á ákvæðum skólasamnings milli mennta- og menningarmála-ráðuneytis og Borgarholtsskóla.  

2.2.2016