Ágrip af sögu skólans

Mynd af skólanum

Bygging Borgarholtsskóla hófst árið 1995 og hvíldi framkvæmdin á samningi milli ríkis, Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar. Efnt var til samkeppni um hönnun hússins. Tilboð Arkitektastofu Finns og Hilmars og Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar reyndust hagstæðust. Húsnæðið var unnið í áföngum og skiptist í tvö verknámshús, þriggja hæða bóknámshús og þriggja hæða stjórnunarálmu fyrir skrifstofu, bókasafn og matsal. Starfsemi skólans hófst haustið 1996 en þá voru fyrstu þrír áfangar hússins tilbúnir til notkunar. Fjórða áfanga var lokið í árslok 1999 og var húsið þá fullbyggt. Skólanum er ætlað að hýsa um 1000 nemendur í starfs- og bóknámi. Mikil birta og gott rými einkenna skólahúsið.

Skólameistari, Eygló Eyjólfsdóttir, var ráðinn til starfa haustið 1995 og var í embætti næstu ár. Árið 2001 tók Ólafur Sigurðsson við. Bryndís Sigurjónsdóttir var skólameistari frá 2010 og til 2016.  Síðan 1. júlí 2016 hefur Ársæll Guðmundsson verið skólameistari.

Eygló hafði eitt ár til að undirbúa skólastarfið ásamt skólanefnd. Meðal nýjunga var fjölmenntabraut sem ætluð var nemendum sem voru óráðnir um námsbraut sína og starfsnámsbrautir á sviði verslunar og félagsþjónustu. Strax í upphafi hófst kennsla í fornámi og á bóknámsbrautum til stúdentsprófs og iðnnámi á sviði málm- og bíliðna. Starfsemi sérnámsbrautar hófst einnig á fyrsta starfsári. Samstarf atvinnulífs og skólans var með nýstárlegum hætti því Fræðslumiðstöð bílgreina stýrði námi í bílgreinum og rak auk þess eftirmenntun bílgreinamanna í skólanum samkvæmt sérstökum samningi til ársloka 1998 en þá yfirtók skólinn alla kennslu í bíliðnum.

Borgarholtsskóli var settur í fyrsta sinn mánudaginn 2. september 1996. Nemendur voru tæplega 400 talsins og kennarar og annað starfsfólk á fimmta tug. Stöðugur vöxtur og þróunarstarf hafa einkennt  starf skólans. Hann hefur verið frumkvöðull á ýmsum sviðum. Meðal þeirra er almenn námsbraut, félagsþjónustubraut og námsbraut í margmiðlunarhönnun. Skólinn býður fram nám fyrir skólaliða og stuðningsfulltrúa í grunnskólum Reykjavíkur og  kennsla í stóriðjuskóla álversins í Straumsvík hefur að hluta til verið undir forsjá Borgarholtsskóla. Auk þess sækja grunnskólanemar úr nokkrum skólum í Reykjavík og úr Mosfellsbæ valgreinar á framhaldsskólastigi í málmiðngreinum.

BHS2006Haustið 2006 var tíu ára afmæli skólans haldið hátíðlegt með ýmsu móti. M.a. söfnuðu nemendur og starfsfólk Borgarholtsskóla í samvinnu við ABC barnahjálp um 3 milljónum króna til nýbyggingar skólahúsnæðis í Jaranwala í Pakistan. 

Borgarholtsskóli hefur frá upphafi gert það að stefnu sinni að stuðla að bókmennt, handmennt og siðmennt nemenda sinna. Einkunnarorð skólans eru: agi, virðing, væntingar.

Borgarholtsskóli hefur einsett sér að vera leiðandi menntastofnun á þeim námssviðum sem boðið er upp á. Í náinni samvinnu við atvinnulífið og háskólastigið hefur skólinn reynt að tryggja nemendum sínum hnökralausa leið til vinnu eða áframhaldandi náms. Starfræksla brauta á sviði upplýsingatækni og margmiðlunar hefur stutt ríkulega við þessa viðleitni enda skólinn verið í fararbroddi við að innleiða rafrænt námsumsjónarkerfi til hagsbóta fyrir nemendur og kennara

Borgarholtsskóli er fjölbreyttur og framsækinn skóli sem leggur áherslu á að allir fái nám við sitt hæfi. Boðið er upp á margar námsleiðir í bóknámi, listnámi, iðnnámi og starfsnámi.

Frá stofnun skólans hefur verið lögð rík áhersla á að Borgarholtsskóli sé fyrir alla með það að markmiði að sinna þörfum samfélags og einstaklinga sem best. Hlúð hefur verið að nýjum vaxtasprotum í skólastarfinu í góðri samvinnu við atvinnulífið og aðra hagsmunaaðila. Blómleg uppbygging nýrra verk- og starfsnámsbrauta ber þess glöggt vitni að þörfin fyrir nýbreytni og framfarir er mikil. Í þessu sambandi má nefna að Borgarholtsskóli hafði frumkvæði að uppbyggingu námsbrauta fyrir félagsliða, skólaliða, tómstundaliða og fleiri fagstéttir sem atvinnulífið og samfélagið allt hefur kallað eftir.

Borgarholtsskóli hefur frá hausti 2008 boðið upp á afreksíþróttasvið í knattspyrnu, körfuknattleik, handbolta og golfi. Nemendur á afreksíþróttasviði geta stundað nám á hvaða bóknámsbraut skólans sem er (félagsfræði-, náttúrufræði- eða viðskipta- og hagfræðibraut). Afreksíþróttasvið er fyrir nemendur sem vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða bóknámi.

Kennslufyrirkomulag við Borgarholtsskóla hefur tekið mið af þörfum nemenda og samfélags hverju sinni. Í mörg ár var rekinn kvöldskóli og síðdegisnám í Borgarholtsskóla en sú starfsemi hefur nú verið lögð undir dreifnámsformið. Dreifnám hefur verið starfrækt við skólann í 10 ár og er það með staðbundnum lotum, einkum fyrir þjónustubrautir, málm- og bíliðnir. Með dreifnámi leitast Borgarholtsskóli við að þjónusta sem best þá nemendur sem vegna búsetu, atvinnu, veikinda eða annarra ástæðna geta ekki stundað nám með hefðbundnum hætti í dagskóla. Dreifnám felur í sér fulla kennsluþjónustu sem þó fer ekki fram nema að litlum hluta í sjálfu skólahúsnæðinu. Kennslutímar og umræður fara fram á veraldarvefnum og eins gefst nemendum færi á að vinna verkefni og taka próf á þeim vettvangi. Núverandi kennslufyrirkomulag er dagskóli og dreifnám.

Ný stefnuskrá í anda nýrra framhaldsskólalaga leit dagsins ljós í ársbyrjun 2012. Þar segir m.a.:

Skólinn þjónar breiðum hópi nemenda og býður mjög fjölbreytt námsval. Framtíðarsýn skólans er skýr. Skólinn er trúr upphaflegum markmiðum sínum, býður fjölbreytt nám í hæsta gæðaflokki fyrir breiðan hóp nemenda og notar til þess viðurkennd gæðaviðmið. Borgarholtsskóli er í tengslum við nærsamfélagið, aðliggjandi skólastig og atvinnulífið og sinnir með þeim hætti breytilegum þörfum margra. Umhverfisvitund og vitund um mikilvægi sjálfbærrar þróunar er sterk meðal starfsmanna og nemenda skólans sem státar af grænfána Landverndar. Innan skólans er grannt fylgst með tækninýjungum, boðið er upp á besta búnað sem völ er á hverju sinni með það að markmiði að skila vel menntuðu fólki út í atvinnulíf og framhaldsnám. Nýsköpun er í hávegum höfð og unnið er að því að auka vægi hennar á brautum skólans. Jafnframt er lögð áhersla á skólaþróun og fagmennsku kennara. Skólinn er þátttakandi í erlendum samstarfsverkefnum. Leitast er við að styrkja góðan starfsanda svo að skólinn verði hér eftir sem hingað til eftirsóttur vinnustaður.

Borgarholtsskóli undirbýr af fullu kappi innleiðingu laga um framhaldsskóla og umbætur í skólakerfinu. Öll sú vinna er í samræmi við stefnuskrána og byggir á henni. Öll svið og brautir Borgarholtsskóla eru í mótun og mörg verkefni í smíðum sem styðja við breytingarferlið. Samhliða er unnið að uppbyggingu gæðakerfis fyrir skólann með það fyrir augum að einfalda framkvæmdina.

Yfirstjórn skólans leiðir umbreytinguna ásamt stýrihópi. Kennslustjórar stjórna innleiðingarferlinu í samræmi við stefnu skólans um leið og sértæk stefna hvers kennslusviðs er mótuð. Kennarar hafa tækifæri til að móta kennsluhætti og námsmat í samræmi við breytingarferlið með það að markmiði að auðvelda nemendum að öðlast tilskilda þekkingu, leikni og hæfni.

Nýjar námsbrautir sjá dagsins ljós á næstu árum og eldri námsbrautir verða endurnýjaðar í samræmi við framhaldsskólalög. Skólaárið 2015-2016 verður heildarnámskrá skólans komin í framkvæmd eins og framhaldsskólalög gera ráð fyrir.

2.9. 2016