Kynning fyrir 10. bekkinga

10. bekk boðið í heimsókn

Búið er að bæta við einni kynningu og verður hún mánudaginn 12. apríl kl. 15:00-16:00.

Borgarholtsskóli

Skólinn býður upp á fjölbreytt nám, bæði bóklegt nám, iðn- og starfsnám og listnám.

Námsleiðir

Listnám

Listnám veitir almenna menntun og áhersla er lögð á skapandi verkefnavinnu og tæknikunnáttu.

Grafísk hönnun
Kvikmyndagerð
Leiklist

Iðn- og starfsnám

Í málmiðngreinum blandast saman nútíma tölvu- og hátækni og hefðbundið handverk.

Blikksmíði
Rennismíði
Stálsmíði
Vélvirkjun

Námi á félagsvirkni- og uppeldissviði er ætlað að hlutverk að svara kröfum samfélagsins um almenna menntun og að búa nemendur undir sérhæfð störf.

Félagsliðar
Félagsmála- og tómstundanám
Leikskólaliðar
Stuðningsfulltrúar

Í bíliðngreinum blandast saman nútíma tölvu- og hátækni og hefðbundið handverk.

Bifreiðasmíði
Bifvélavirkjun
Bílamálun

Bóknám

Nám á bóknámsbrautum veitir nemendum víðtæka almenna menntun og undirbýr þá fyrir háskólanám.

Félags- og hugvísindabraut
Náttúrufræðibraut
Viðskipta- og frumkvöðlabraut

Nám á framhaldsskólabraut er undirbúningur fyrir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og áframhaldandi nám. Framhaldsskólabraut

Sérnámsbraut er ætluð nemendum sem þurfa sérhæft einstaklingsmiðað nám sem mætir færni þeirra og áhuga. Sérnámsbraut

Afreksíþróttasvið er fyrir nemendur sem vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksíþrótta samhlilða námi. Afrekið

Spurt og svarað

Hvar er Borgarholtsskóli?

Borgarholtsskóli er staðsettur við Mosaveg í Grafarvogi, við hliðina á Spönginni.

Er bekkjarkerfi eða áfangakerfi í skólanum?

Það er áfangakerfi í skólanum.

Hvað eru margir nemendur í skólanum?

Um 1200 nemendur eru við nám í skólanum, bæði í dagskóla og dreifnámi.

Hver eru inntökuskilyrðin?

Til þess að hefja nám þarf umsækjandi að hafa lokið grunnskóla með einkunnina B, B+ eða A í ensku, íslensku og stærðfræði. Umsækjandi með C eða C+ getur innritast á brautirnar en tekur sérstaka undirbúningsáfanga í þeim fögum sem hann hefur ekki lokið með B eða betri einkunn.

Umsækjandi sem lokið hefur grunnskóla með einkunnina D í einni eða fleiri kjarnagreinum (ensku, íslensku eða stærðfræði) getur innritast á framhaldsskólabraut með mismunandi áherslur: bóknáms, listnáms eða verknáms.

Hvernig er sótt um nám í Borgarholtsskóla?

Allar upplýsingar um innritun má finna á vef skólans .

Hvernig er sótt um á afreksíþróttasviði skólans?

Nemendur, sem óska eftir að stunda nám á afreksíþróttasviði, sækja um skólavist rafrænt eins og aðrir. Því til viðbótar þurfa þeir að sækja um á afreksíþróttasviði á sérstöku eyðublaði sem þarf að berast á skrifstofu skólans í síðasta lagi 10. júní 2021.

Hver eru innritunargjöldin?

Á vef skólans má finna upplýsingar um innritunargjöld.

Stoppa strætisvagnar nálægt skólanum?

Já, Spöngin er rétt hjá og þar stoppa leiðir 6, 7, 18 og 24.

Hvernig er félagslífið í skólanum?

Það hefur verið ákveðin áskorun að halda úti félagslífi í heimsfaraldri en nemendafélag Borgarholtsskóla hefur staðið sig vel í að halda uppi félagslífi með viðburðum eins og Kahoot keppnum og bílabíóum. Nemendafélagið sér um að halda alls konar viðburði í eðlilegu árferði. Til að mynda nýnemaferðir, böll, hlöðukvöld, paintball mót. Í Borgarholtsskóla er virkt leikfélag sem setur upp leikrit á hverju ári. Á hverju ári eru svo þemadagar skólans, Skóhlífadagar.

Hversu mikið val hafa nemendur í náminu?

Val nemenda fer eftir því á hvaða braut þeir eru. Í bóknámi til stúdentsprófs velja nemendur kjörsviðsáfanga og velja að auki 10 einingar í frjálsu vali. Á öðrum námsbrautum er frjálst val yfirleitt 5-10 einingar auk þess sem nemendur geta valið á milli mismunandi námsleiða innan sviðs.

Hvernig er námsmatið?

Borgarholtsskóli er símatsskóli og því ekki sérstakur próftími í lok annar. Nemendur skila verkefnum og taka styttri próf yfir önnina sem telja saman í lokaeinkunn áfanga.

Eru áfangar sem teknir voru í grunnskóla metnir til eininga?

Já, ef um viðurkennda framhaldsskólaáfanga sem samrýmast námsbraut nemandans er að ræða.

Er myndlist, listdans eða tónlistarnám metið til eininga?

Já, ef námið uppfyllir kröfur til náms á framhaldsskólastigi getur það komið í stað frjáls vals og hluta kjörsviðs.

Er hægt að sleppa íþróttum ef íþróttir eru æfðar?

Að hluta til. Nemendur geta fengið hluta af íþróttaeiningum brautar sinnar metnar. Sérstök viðmið gilda fyrir afrekssviðið.

Er tekið tillit til námserfiðleika (ADHD, lesblinda o.fl.)?

Símatsfyrirkomulagið gerir námið aðgengilegra en ella fyrir þá nemendur sem eru að vinna með slíkar áskoranir. Allir nemendur geta nýtt sér ráðgjöf og leiðbeiningar varðandi námið en við skólann starfar öflugt teymi náms- og starfsráðgjafa auk þess sem sérstakur lestrarráðgjafi er starfandi í námsveri skólans.

Er hægt að fá aðstoð í náminu?

Já, kennarar eru boðnir og búnir til að aðstoða nemendur á allan mögulegan hátt. Að auki er starfandi við skólann öflugt stoðteymi – tveir náms- og starfsráðgjafar og lestrarráðgjafi í námsveri.

Eru náms- og starfsráðgjafar starfandi í skólanum?

Já, við skólann starfa tveir náms- og starfsráðgjafar . Hlutverk þeirra er að standa vörð um velferð nemenda á sem breiðustum vettvangi. Náms- og starfsráðgjöfum er ætlað að starfa í þágu nemenda, leita lausna í málum þeirra og gæta þess að nemendur búi við jafnrétti og að réttlætis sé gætt gagnvart þeim innan skólans.

Verð ég að hafa fartölvu í skólanum?

Já, nám í framhaldsskóla nú á tímum er að nokkru leyti byggt á að nemendur hafi aðgang að upplýsingum og úrvinnslutækjum. Nemendur skólans fá tölvupóstfang og aðgang að Office365 og Adobe Creative Cloud þegar þeir hefja nám.

Hvernig er tækjakostur skólans?

Í Borgarholtsskóla er lagður metnaður í að hafa tækjakost ávallt í samræmi við það sem gerist og gengur í þeim störfum sem verið er að undirbúa nemendur fyrir. Á það sérstaklega við um verknám og listnám. Skjávarpar eða snertiskjáir eru í öllum stofum auk hljóðkerfis.

Er bókasafn í skólanum?

Já, það er stórt bókasafn með góðri aðstöðu í skólanum. Þar eru tölvur til afnota fyrir nemendur, bækur, tímarit og ýmislegt annað sem getur gagnast nemendum í leik og starfi.

Er mötuneyti í skólanum?

Mötuneyti er rekið fyrir nemendur og starfsfólk skólans þar sem leitast er við að hafa hollan, góðan og fjölbreyttan mat í boði. Á morgnana er boðið upp á hafragraut og í hádeginu er í boði heitur matur en matseðill vikunnar er auglýstur í upphafi viku. 

Hver er aðstaðan til íþróttaiðkunar?

Borgarholtskóli er í nálægð við Egilshöll þar sem úrvals aðstaða er til íþróttaiðkunar.

Eru góð bílastæði við skólann?

Já, næg gjaldfrjáls bílastæði eru við skólann.

9.3.2021