• Inga Rut Ingadóttir

Inga Rut Ingadóttir

Leikskólakennari

Ég útskrifaðist úr Borgarholtsskóla vorið 2006 af félagsfræðabraut.

Ég ákvað að fara í Borgó aðallega til að breyta til. Mig langaði ekki í hverfisskólann og það heillaði mig að skólinn var nýr og framsækinn. Það sem ég tók fyrst eftir var hversu vinalegur skólinn var, andrúmsloftið var afslappað og skólinn var heimilislegur. Ég tók ekki eftir því hversu stór hann var og það var mikill kostur.

Eitt af aðalsmerkjum skólans eru kennararnir. Fyndnir, skrýtnir, gáfaðir, sérstakir, fallegir og frumlegir kennarar sem beittu skemmtilegum kennsluaðferðum og gáfu nemendum frelsi til að vinna eftir sínu áhugasviði.  Þeir voru mér innblástur til að verða kennari, í fyrstu framhaldsskólakennari en svo ákvað ég að verða leikskólakennari og mennta yngstu krílin. Ég var mjög vel undirbúin undir námið eftir Borgó þar sem ég fékk góðan undirbúning í félagsgreinum og í ensku sem er nauðsynlegt fyrir háskólanám.  

Þær fjölmörgu námsleiðir sem í boði eru gera það að verkum að nemendahópur skólans kemur úr öllum áttum og fannst mér mjög gaman að kynnast ólíku fólki en að sama skapi var hálfgerð bekkjarstemmning innan hverrar brautar og stórir vinahópar. Ég naut mjög tímans í Borgó og því mæli ég hiklaust með skólanum fyrir alla enda er eitthvað fyrir alla í Borgarholtsskóla.