• Karl Andrésson

Karl Andrésson

Meistaranemi í vinnusálfræði

Ég hef ekkert nema gott að segja um Borgarholtsskóla. Ég hóf nám haustið 2002 og útskrifaðist jólin 2005 af félagsfræðabraut. Ég byrjaði þó námið á náttúrufræðibraut en áttaði mig fljótt á að hún átti ekki við mig og flutti mig því yfir á félagsfræðabraut sem var ekkert mál og nýttust allar mínar einingar á milli brauta. Námið í Borgó er frábært. Það er fjölbreytt, skemmtilegt og faglegt svo allir eiga að geta sniðið það að eigin þörfum og áhugasviðum. Kennararnir í Borgó eru einnig virkilega góðir og gerðu námið áhugavert og skemmtilegt. Það hentaði mér vel að vera í áfangakerfinu sem Borgó byggir á þar sem það gefur nemendum tækifæri til að móta sitt nám. Ég gat því tekið námið á þremur og hálfu ári.

Í dag er ég í meistaranámi í vinnusálfræði við Háskóla Íslands eftir að hafa klárað BS próf í sálfræði við sama skóla. Áhugi minn á sálfræði kviknaði í Borgó og var námið þar virkilega góður undirbúningur fyrir háskólanámið. Mikið úrval var af sálfræðiáföngum sem voru fjölbreyttir, skemmtilegir og krefjandi. Þar sem allt mitt nám er á ensku þá er ég einnig sérstaklega ánægður með alla þá ensku sem ég tók í Borgó sem var vægast sagt stórskemmtileg.

Ég hvet alla til að skoða Borgó þegar þeir velja sér framhaldsskóla. Skólinn er gríðarlega fjölbreyttur og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.