• Ingunn Ragnarsdóttir

Ingunn Anna Ragnarsdóttir

Með BA próf í ensku

Þegar ég innritaðist í Borgarholtsskóla haustið 2005 hafði ég ekki neina sérstaka hugmynd um hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór. Ég var heldur ekki viss um að ég gæti verið í skóla þar sem mér hafði ekki gengið vel í námi. Ég var orðin 23 ára gömul og búin að klára 1 ár í framhaldsskóla.  Þegar ég kom í Borgó tóku á móti mér frábærir og skilningsríkir kennarar sem gerðu allt sem þeir gátu til að hjálpa mér með námið og beina mér á rétta braut í náminu. 

Ég skráði mig á verslunarbraut og undir handleiðslu frábærra kennara náði ég grunninum í bókhaldi og verslunarreikningi og skemmti mér vel í leiðinni. Fljótlega áttaði ég mig á því að enskan átti vel við mig og fékk ég að púsla náminu mínu þannig saman að ég tók eins mikla ensku og ég gat. Árið 2007 útskrifaðist ég með verslunarpróf frá Borgarholtsskóla og fékk viðurkenningu fyrir frábæran námsárangur.  Aldrei hefði mér dottið í hug að ég fengi slíka viðurkenningu en eftir að ég byrjaði í Borgó þá gekk mér vel og með stuðningi og hjálp frá kennurum og starfsfólki skólans uppgötvaði ég að skóli og nám átti mjög vel við mig og að ég væri bara nokkuð góður námsmaður. Það var líka í Borgó sem ég vissi allt í einu hvað ég vildi verða þegar ég væri orðin stór.  Eftir allt enskunámið hjá frábæru enskukennurunum í Borgó varð mér ljóst að ég vildi líka verða enskukennari. 

Eftir stúdentsprófið frá Borgó 2008 fór ég beint í Háskóla Íslands í ensku og og hefur námið gengið mjög vel. Í júní 2011 útskrifast ég úr HÍ með BA próf í ensku og hef sótt um framhaldsnám í kennslufræði framhaldsskóla M.Ed. við Menntavísindasvið HÍ.

Grunnurinn sem ég fékk úr Borgarholtsskóla var besta veganesti sem ég hefði getað fengið og undirbjó mig mjög vel fyrir nám í háskóla. Góði andinn í skólanum og vilji kennara og annars starfsfólks til að hjálpa nemendum við að klára námið svo það nýtist sem best er ómetanlegt og hugsa ég til baka um tímann minn í Borgó sem mjög skemmtilegan og sérstaklega fræðandi.  Ég mæli hiklaust með Borgarholtsskóla við alla sem ég hitti og standa á krossgötum varðandi stefnu í lífi og námi. Menntun opnar fyrir tækifæri sem hefðu annars aldrei verið í boði fyrir mig og ég þakka Borgarholtsskóla fyrir alla aðstoðina, skilninginn og góðu kennsluna sem ég fékk því án hennar væri ég ekki stödd þar sem ég er í dag. Takk fyrir mig.