• Viktoría Birgisdóttir

Viktoría Birgisdóttir

Leiklistarnemi við Listaháskóla Íslands

Ég hóf nám við Borgarholtsskóla árið 2006 og útskrifaðist af náttúrufræðibraut vorið 2010. 
Það var stórt og skemmtilegt skref að fá að velja sér skóla eftir 10. bekk. Valkvíðinn var alveg í hámarki. Ég var dugleg að fara á kynningar og skoða hvað væri í boði. Það var ekki fyrr en sama dag og umsóknarfresturinn rann út að ég ákvað að sækja um Borgarholtsskóla og ég sé ekki eftir því. Það voru margar ástæður fyrir vali mínu. Meðal annars var það jákvætt viðmót kennara og nemenda, hreinlæti í skólanum og að leiklist var í boði sem valáfangi. Ég var því mjög glöð þegar ég fékk inngöngu.

Þessi fjögur ár sem ég var í Borgó voru ótrúlega skemmtileg og gefandi. Ég lærði að taka ábyrgð á eigin námi og líta það jákvæðum augum. Það er mjög mikilvægur eiginleiki sem ég veit að mun nýtast mér alla ævi.

Félagslífið var mjög skemmtilegt og ég tók virkan þátt í því. Á fyrsta ári var ég í nýnemaráði, á öðru ári fór ég í skemmtinefnd og á þriðja ári var ég í stjórn leikfélagsins. Leikfélagið hafði legið í dvala í nokkur ár og þegar ég tók við sem formaður á vorönn 2009 var það mitt fyrsta verk að vekja það til lífsins. Við settum upp sýninguna Rómeó og Júlíu sem sló ærlega í gegn.

Í dag er ég að læra leiklist í námi sem kallast Fræði og framkvæmd við Listaháskóla Íslands. Það er alveg ótrúlega gaman og krefjandi. Ég á Borgarholtsskóla það að þakka að hafa opnað augu mín fyrir leiklist. Ég tók sex leiklistaráfanga í Borgó og það voru leiklistarkennararnir þar sem hvöttu mig áfram í að sækja um í Listaháskólanum.

Þegar ég horfi til baka þá er ég mjög sátt með árin mín í Borgó. Ég mæli hiklaust með skólanum fyrir hvern sem er enda býður hann upp á fjölbreytileika í námi svo flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.