• Sindri Stefánsson

Sindri Stefánsson

Læknisfræðinemi við Háskóla Íslands

Eins og flestir pældi ég mikið í því hvað ég ætlaði að gera við restina af lífi mínu og hvaða framhaldsskóla ég ætti að fara í þegar ég lauk grunnskóla. Ég fór í kynningarferðir í marga skóla og þeir voru allir mjög flottir. Á endanum valdi ég náttúrufræðibraut í skóla í mínu hverfi, Borgó. Ég komst semsagt að þeirri niðurstöðu að hann væri ekkert verri en hinir skólarnir sem ég hafði heimsótt og þar að auki gætt ég sofið alveg til klukkan 8 á morgnana (sem var alveg magnaður kostur!).

Skólinn fannst mér mjög fínn. Ég var dálítið smeykur við áfangakerfið til að byrja með en þegar ég fór að átta mig á því fékk ég byr undir báða vængi og gat stjórnað mínum eigin námshraða. Síðan hætti ég hreinlega að botna í því af hverju einhver skóli væri með bekkjarkerfi, því að falla á heilli önn út af einu fagi finnst mér út í hött. Ég kynntist einnig mun fleiri krökkum en ég hefði kynnst í bekkjarkerfi. Mér þykir enn þann dag í dag mjög vænt um starfsbrautina í Borgó. Hún var alltaf með í öllu sem var gert og er órjúfanlegur hluti af skólanum.

Félagslífið í skólanum var mjög skemmtilegt og myndi ég segja að ég hafi verið ágætlega virkur í því. Ég skemmti mér mjög vel í Borgó þó ég hefði aldrei haft áhuga á því að starfa í nemendafélaginu eða öðrum félögum/nefndum innan skólans. Þá fór ég í tvær frábærar utanlandsferðir tengdar tungumálaáföngum í Borgó sem verða seint toppaðar, því báðar voru óendanlega skemmtilegar.

Náttúrufræðibrautin í Borgó kom mér skemmtilega á óvart. Kennararnir voru nánast allir hressir, náðu vel sambandi við okkur nemendurna og tókst að troða upplýsingunum inn í hausinn á okkur! Skólinn og kennararnir voru langt frá því að vera eins rykfallnir og ég bjóst við. Svo lenti í því einn daginn að náttúrufræðikennarinn ákvað að kenna aukaáfanga í taugalífeðlisfræði upp á sitt einsdæmi. Með miklu striti tókst honum að troða þessum aukatíma inn í hádegishléinu, sem þýddi að hann var að eyða sínum eigin matartíma í að kenna okkur. Ég sló auðvitað til og skráði mig í tímann, sem ég sé ekki eftir í dag, því þar fann ég loksins það sem ég hafði virkilega áhuga á. Skólinn hjálpaði mér þannig að átta mig á því hvert ég vildi stefna í framhaldinu.

Þegar ég lít til baka hefði ég ekki getað valið betur, og þó svo í ég viti í raun ekki hvernig allt hefði runnið fram hefði ég valið öðruvísi, þá veit ég að ég myndi hiklaust velja það sama aftur.

Stundirnar í Borgó voru góðar.