• Ásta Friðriksdóttir

Ásta Sigrún Friðriksdóttir

Íþróttafræðinemi í Bandaríkjunum

Það er stórt skref þegar maður útskrifast úr grunnskóla og þarf að velja sér framhaldsskóla. Ég fór, eins allir grunnskólakrakkar, í marga mismunandi skóla og einhverra hluta vegna leist mér strax vel á Borgó. Ekki bara af því þetta var heimaskólinn minn heldur af því að viðmótið sem ég fékk frá kennurum og nemendum var hlýtt og ég fann að ég var velkomin í skólann.

Þrátt fyrir miklar umræður um hversu ungur og óreyndur skólinn væri fann ég aldrei fyrir því á minni skólagöngu. Skólinn lagði mikið upp úr því að koma til móts við nemendur hvort sem það var vegna námsörðugleika eða annarra vandamála. Einnig lögðu kennarar mikið á sig til þess að ná til nemenda og fann ég strax að þeim var annt um árangur hvers og eins, en vissulega þurftu allir að leggja á sig til að ná árangri.

Félagslífið í Borgó var virkilega gott og það gátu allir fundið sér eitthvað við hæfi, hvort sem þeir voru á félagsfræðabraut eða í bifvélavirkjun. Einnig kynntist ég fullt af ólíku fólki sem ég held enn góðu sambandi við í dag. Síðasta árið mitt í Borgó var ég formaður nemendafélagsins og stundaði íþróttir af fullum krafti. Það getur verið erfitt að finna jafnvægi í svona miklum önnum en ég átti aldrei í erfiðleikum með það þar sem ég gat alltaf treyst á að kennararnir myndu aðstoða mig ef þess þyrfti.

Núna stunda ég nám í íþróttafræði í Bandaríkjunum og ég finn vel að ég næ að nýta mér margt af því sem ég lærði í Borgó, sérstaklega hvað varðar ensku en ég hef aldrei fundið fyrir neinum erfiðleikum með það að stunda nám á ensku. Borgó gaf mér tækifæri til að vera sjálfstæð og það fengu allir tækifæri til að skara fram úr. Ég get því sagt að Borgó eigi stóran þátt í því hvernig einstaklingur ég er í dag.