• Aðalheiður Helgadóttir

Aðalheiður Helgadóttir

Lögfræðingur

Algjör tilviljun réði því að ég hóf nám í Borgarholtsskóla eftir skyldunám í grunnskóla og í dag er ég því einstaklega þakklát. Fyrir mér þýddi það að hefja nám í menntaskóla meira frelsi til að ráða sér sjálfur og það að stíga fyrstu skrefin í að vera „fullorðin“. Borgó var því eins og sniðinn að mínum þörfum þar sem gagnkvæm virðing milli kennara, starfsfólks og nemenda réði ríkjum.

Alltaf var komið fram við mann sem jafningja og vin. Ég hef ekki oft heyrt um skólameistara sem heilsar flestum nemendunum með nafni eða kennara sem gefa upp farsímanúmer til að hringja ef á þarf að halda. Þá er sennilega sjaldheyrt að hjá nemanda sem útskrifast úr menntaskóla hafa hluti af námsefninu verið að rappa á ensku, dönsku og þýsku. Metnaður kennara til að sníða námið eftir þörfum og í samvinnu við nemendur var og er sennilega enn til staðar í nánast öllum áföngum. Vegna fjölbreyttra námsleiða eru nemendur og kennarar sömuleiðis mjög breiður hópur sem vinnur saman í þessu litla samfélagi. Ég er viss um að það leiðir til þess að nemendur standa vel að vígi þegar komið er út í alvöru lífsins.

Eftir að ég útskrifaðist úr Borgó eftir fjögurra ára nám með verslunarpróf og sem stúdent af tungumálabraut tók ég mér ársleyfi en skellti mér svo í laganám við Háskóla Íslands. Í laganáminu komst ég að því að auk þess sem tungumálafærni mín hjálpaði mikið við námið stóð ég rosalega vel að vígi í að skrifa góðan texta og ritgerðir. Þar veit ég að spilaði inn í árátta tveggja enskukennara að láta nemendur skrifa stíla og ritgerðir sem og góð íslenskukennsla. Í dag starfa ég sem lögfræðingur og nýti það sem ég lærði í Borgó á hverjum einasta degi, hvort sem er í mannlegum samskiptum eða við almenn fræðistörf.