• Guðni S. Guðjónsson

Guðni S. Guðjónsson

Flugmaður

Það var þægilegt andrúmsloft í Borgarholtsskóla. Skólinn var ársgamall þegar ég byrjaði þar í námi haustið 1997. Hópurinn sem ég var í útskrifaðist vorið 2001. 

Það kemur ekki á óvart hvað Borgarholtsskóli er öflugur og vinsæll í dag. Mér fannst einkenna skólann hvað kennarar og annað starfsfólk hafði mikinn áhuga á því að vinna vel með okkur. Maður týndist ekki í fjöldanum eins og gerist í mörgum skólum.

Þegar ég hitti mína gömlu kennara á förnum vegi sé ég að þessi góði andi hefur haldist æ síðan. Margir þeirra sem voru að kenna mér starfa enn við skólann. Það sem einkenndi þá var hversu metnaðarfullir og hressir þeir voru. Auk þess að leggja áherslu á að efla öguð vinnubrögð og sjálfstæði hjá nemendum hikuðu kennarar ekki við að prófa nýjar kennsluaðferðir. Skólinn snérist samt ekki eingöngu um nám. Við fórum í mörg eftirminnileg ferðalög og félagslífið var hressandi.  Ég eignaðist góða félaga og vini fyrir lífstíð. 

Grunnurinn í Borgarholtsskóla skilaði sér í áframhaldandi námi. Þeir sem útskrifuðust á sama tíma og ég hafa farið í mismunandi áttir og staðið sig vel. Fólk hefur lagt ýmislegt fyrir sig: bíliðngreinar, læknisfræði, jarðfræði, lögfræði, rafvirkjun, tungumálanám, hjúkrunarfræði, íþróttafræði, viðskiptafræði, félagsfræði og margt fleira.

Sjálfur fór ég í flugnám eftir stúdentspróf og öðlaðist atvinnuflugmannsréttindi árið 2004. Ég hóf störf sem flugmaður stuttu síðar og starfa við það í dag. Það er góð tilfinning að fá að vinna við það sem ég hef gaman að.

Niðurstaðan er einföld. Það finna allir eitthvað við sitt hæfi í Borgarholtsskóla, sama hvert fólk stefnir. Aðstaðan er framúrskarandi á öllum sviðum. Góðir kennarar ásamt fjölbreyttu úrvali af námsleiðum gerir skólann sérstaklega áhugaverðan og veitir fólki góðan grunn fyrir framtíðina.