• Daðey Albertsdóttir

Daðey Albertsdóttir

Sálfræðinemi við Háskóla Íslands

Ég útskrifaðist frá Borgarholtsskóla af félagsfræðabraut árið 2008.

Ég er mjög sátt með val mitt á menntaskóla þar sem að mér fannst ótrúlega skemmtilegt í Borgó og kennslan þar til fyrirmyndar. Það sem stóð uppúr hjá mér var hversu mikinn áhuga kennarar sýna nemendum sínum og hversu nútímaleg og fjölbreytt kennslan er.

Ég tók virkan þátt í félagslífinu í Borgó og á seinasta árinu mínu var ég í forsvari fyrir nemendafélagið. Af því lærði ég einstaklega mikið og fékk maður þá einnig tækifæri á að kynnast kennurunum á annan hátt. Það starf hefur skilað mér miklu í dag þar sem að ég hélt nemendafélagsstörfunum áfram og er núna skemmtanastýra Animu, félags sálfræðinema, ásamt því að vera í 7. sæti á framboðslista Vöku í kosningum til stúdentaráðs.

Eftir nám mitt í Borgarhotsskóla fór ég í Háskóla Íslands þar sem að ég er nú á 2. ári í sálfræði. Sálfræðideildin er talin vera ein af fjórum erfiðustu deildunum í Háskóla Íslands og var grunnur minn fyrir þetta nám einstaklega góður. Sálfræðiáfangarnir sem boðið er upp á í Borgó eru mjög góður grunnur fyrir Almenna sálfræði sem er áfangi sem þjónar tilgangi síunnar í sálfræðideildinni. Allt það námsefni sem var kennt í þessum áföngum var beintengt við það sem ég lærði í almennri sálfræði þannig að það hjálpaði mér ótrúlega mikið á fyrstu önninni. Einnig var ég mun betur undirbúin fyrir þennan áfanga en margir samnemendur mínir sem komu úr öðrum skólum. Það var ótrúlega þægilegt að hafa lesið flest af námsefninu áður og leið mér stundum eins og þetta væri einfaldlega upprifjun úr mínu fyrra námi. Einnig tók ég marga ensku áfanga í Borgó og það hjálpaði mér mjög mikið þar sem kennslan þar var hreint út sagt frábær en allt námsefni í sálfræðinni er á ensku.

Einn vankantur er þó á því að fara í sálfræðinám með grunn af félagsfræðabraut og það er hversu litla stærðfræði ég þurfti að taka í menntaskóla. Það sem mér þótti erfiðast við fyrstu annirnar í sálfræðinni var tölfræðin sem vefst fyrir mörgum. Grunnurinn fyrir hana var ekki alveg nógu góður og er það slæmt þar sem félagsfræðabraut á meðal annars að vera grunnur fyrir sálfræðinám. Þó var ég svo heppin að eiga góðan kennara að sem að benti mér á að taka meiri tölfræði sem valáfanga í Borgó og það hjálpaði mér mjög mikið.

Á heildina finnst mér Borgó hafa verið frábær menntaskóli og hann kenndi mér mikið. Hann er með mjög fjölbreytt nám sem setur svo skemmtilegan svip á skólann. Takk Borgó fyrir frábæra undirbúninginn sem þú gafst mér!