• Anna Rakel Róbertsdóttir

Anna Rakel Róbertsdóttir

Grafískur hönnuður

Ég var tuttugu og þriggja ára gömul þegar ég byrjaði í Borgarholtsskóla. Þá voru liðin sex ár frá því ég útskrifaðist úr high school og ég hafði verið á vinnumarkaðinum síðan. Það var stór ákvörðun fyrir mig að drífa mig í menntaskóla því mér fannst ég vera orðin svo gömul. En þegar námið hófst tók ég voða lítið eftir því vegna þess að með mér var fólk á öllum aldri.

Margmiðlunarhönnunin á Listnámsbrautinni hentaði mér einstaklega vel vegna þess að aðaláherslan var listræn. Ég hafði alltaf verið lengi að lesa og því aldrei gengið sérstaklega vel í bóklegum fögum. Í Borgarholtsskóla breyttist það - ég stóð mig vel í listrænu fögunum og þannig jókst sjálfstraust mitt. Mér fór þess vegna líka að ganga vel í því bóklega, sem ég sá ekki fyrir.

Portfolio sem ég gerði á síðustu önninni í Borgarholtsskóla varð til þess að ég fékk í kjölfarið vinnu á auglýsingastofu og gat notað það til að sækja um í Listaháskóla Íslands. Ég útskrifaðist þaðan með B.A. gráðu í grafískri hönnun vorið 2010. Af tuttugu manna hópi voru fimm úr Borgarholtsskóla. Margmiðlunarhönnunin var ofsalega góð undirstaða fyrir Listaháskólann og ég stóð vel að vígi að öllu leyti, bæði tæknilega og í bóklegum fögum.

Í dag vinn ég sjálfsstætt sem grafískur hönnuður og er mjög sátt við lífið og tilveruna. Ég væri alveg til í að læra meira en ætla að bíða aðeins með það. Í rauninni er það Borgarholtsskóla að þakka og öllum þeim frábærum kennurum sem þar starfa að ég hélt áfram í námi. Skólinn er frábær, námið áhugavert og andrúmsloftið skemmtilegt og hvetjandi.