• Karen Anna Shelton

Karen Anna Shelton

Kennaranemi í Bandaríkjunum

Þegar ég var í 10. bekk og kominn var tími til að huga að framhaldsskóla, var um margt að velja. Ég fór í heimsóknir í marga skóla, m.a. Borgarholtsskóla. Ég man að mér leist eiginlega strax best á Borgó. Þar var boðið upp á svo marga möguleika í námi, ekki bara hið hefðbundna bóknám til stúdentsprófs. Í Borgó geta allir fundið sér eitthvað við sitt hæfi, og það var þess vegna sem mér leist svo ótrúlega vel á skólann. Á þessum tíma átti ég heima í vesturbæ Reykjavíkur og var hvorki komin með bílpróf né átti bíl. Þar af leiðandi var ég eiginlega neydd til að velja skóla sem var nær heimili mínu. Ég valdi því einn þeirra. Eftir rúmlega ár við nám þar, ákvað ég að skipta um skóla. Ég hafði oft heyrt þá klisju að menntaskólaárin ættu að vera „bestu ár lífs manns“ og mér fannst ég ekki vera á réttum stað til að öðlast þá reynslu.

Ég sótti um í Borgarholtsskóla og þar var strax tekið hlýlega á móti mér. Frá fyrsta degi fann ég að þetta var staður þar sem ég gæti notið mín til fulls. Þótt það hljómi furðulega, leið mér eins og ég væri heima hjá mér. Það er heimilislegt andrúmsloft í Borgó, kannski af því að maður verður að fara úr skónum í anddyrinu, en aðallega vegna þess að allt starfsfólkið þar er svo vinalegt. Annað sem er sérstakt við Borgó er sérnámsbrautin. Mér finnst mikilvægt að nemendur með sérþarfir fái sömu tækifæri og aðbúnað og aðrir. Borgó er svo sannarlega skóli fyrir alla og það að vera dagsdaglega innan um „öðruvísi“ fólk hafði mikil og góð áhrif á mig. Eftir að hafa kynnst nemendum á sérnámsbraut, hóf ég störf sem stuðningsfulltrúi á dagheimili fyrir fötluð börn. Þar kynntist ég ungri stúlku með einhverfu. Ég hafði aldrei kynnst neinum með einhverfu og mér fannst það strax mjög áhugavert.

Eftir útskrift mína frá Borgarholtsskóla flutti ég til Bandaríkjanna, með það markmið að vinna áfram með fötluðum. Ég sótti um á mörgum stöðum, m.a. á dagheimili fyrir fatlaða og í sérskóla fyrir börn með einhverfu og aðra geðkvilla. Frumlegu, skemmtilegu og áhrifaríku kennsluhættirnir sem ég kynntist hjá svo mörgum kennurum í Borgó, gerðu það að verkum að mig langaði sjálf að verða kennari. Ég fékk starf sem stuðningsfulltrúi í sérskóla, nánar tiltekið í skólastofu fyrir nemendur á menntaskólastigi. Flestir nemendurnir voru með einhverfu, en það voru líka nokkrir með Down's heilkenni. Mér varð oft hugsað til Borgó og þeirrar reynslu sem ég öðlaðist þar innan um nemendurna á sérnámbrautinni. Reynsla mín í skólastofunni, bæði þar sem ég vann sem stuðningsfulltrúi og sem nemandi í Borgó, hefur hvatt mig til að hefja nám sem sérkennari. Ég á nokkur ár eftir af námi, hér í Bandaríkjunum, áður en ég get hafið störf sem kennari. Það er yndislegu kennurunum, nemendunum og öllum þeim sem koma að Borgarholtsskóla að þakka, að ég er þar sem ég er í dag.
Takk fyrir „bestu ár lífs míns“ Borgó!