Verðlaun í fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla

18/5/2021 Bóknám

  • Nemendur að baki Línu ásamt Unni
  • Nemendur með verðlaunin frá Ungum frumkvöðlum
  • Nemendur að baki Stund

Nemendur í nýsköpun hafa á vormisseri tekið þátt í fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla. Þar fá nemendur tækifæri til að raungera hugmyndir sínar, búa til fyrirtæki og keppa við aðra framhaldsskóla. Nemendur Borgarholtsskóla vinna öll sín verkefni í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Unnur Gísladóttir, kennari, hefur haft umsjón með nemendum í þessu verkefni. 

Venjan hefur verið sú að haldin sé vörumessa í Smáralind, en sökum sóttvarnarráðstafana var keppnin færð á vef Ungra frumkvöðla. Um 600 framhaldsskólanemendur tóku þátt en 33 nemendur úr Borgarholtsskóla tóku þátt með 11 fyrirtæki. Af þessum ellefu komust tvö fyrirtæki í úrslit og unnu til verðlauna. Fyrirtækið Lína hlaut umhverfisverðlaun Ungra frumkvöðla. Lína endurvinnur ónothæfar klifurlínur, gerir úr þeim mottur, hitaplatta og annað nytsamlegt fyrir heimilið. Stund hlaut 3. sætið í keppninni en Stund selur handgerð sojakerti með áherslu á jákvæða líkamsímynd.

Nemendur hafa lagt sig alla fram og er þeim, ásamt kennara þeirra, óskað til hamingju með frábæran árangur í keppninni.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira