Þýskuhátíð
Þriðjudaginn 9. október var haldið upp á 10 ára afmæli PASCH-verkefnisins, en Borgarholtsskóli er eini íslenski framhaldsskólinn í þessu þýska verkefni sem teygir anga sína um allan heim.
Dagurinn hófst snemma morguns með ávarpi skólameistara, Ársæls Guðmundssonar, og sendiherra Þýskalands, Herbert Beck. Síðan unnu nemendur verkefni í ýmsum vinnustofum eins og í gerð örkvikmynda, leiklist, tónlist með hljómsveitinni Brotmüller, umhverfismálum, íþróttum o.fl. Að sjálfsögðu fór öll vinnan fram á þýsku.
Eftir hefðbundinn þýskan hádegismat í boði þýska sendiráðsins var m.a. efnt til hraðstefnumóts (speed-dating), þar sem nemendur gátu rætt á þýsku við gesti úr ýmsum geirum atvinnulífsins um hvernig þetta tungumál hefur nýst þeim.
Í lok dags sýndu nemendur afrakstur vinnunar í leiklist og kvikmyndagerð ásamt því að hljómsveitin Brotmüller tók nokkur lög fyrir góðan hóp nemenda, starfsfólk, sendiherra Þýskalands og aðra gesti.
Um kvöldið voru tónleikar í Stúdentakjallaranum. Þrír nemendur í þýsku i HÍ settu saman hljómsveit og hituðu upp fyrir þýsku hljómsveitina Brotmüller.
Þýskuhátíðin hefði ekki getað orðið að veruleika nema vegna samstillts átaks þýskukennara skólans, Bernd Hammerschmitd og Sigurborgar Jónsdóttur, fyrrverandi nemenda Borgarholtsskóla, Goethe-stofnunarinnar og þýska sendiráðsins.
Til PASCH verkefnisins var stofnað
2008 af þýska utanríkisráðuneytinu til að efla nám og kennslu í þýsku í sem
flestum löndum. Goethe-stofnunin og þýskir skólar erlendis starfa í umboði
ráðuneytis með minnst einum skóla í hverju þátttökulandi. Í upphafi var stefnt
að samstarfsneti um 1500 skóla en í dag eru 1800 skólar svokallaðir
PASCH-skólar. Samstarfsaðili Borgarholtsskóla er Goethe-stofnunin í
Kaupmannahöfn.
Samstarfið hefur verið mikil lyftistöng fyrir þýskukennslu og –nám við
Borgarholtsskóla og hefur skólinn notið virks stuðnings Goethe-stofnunarinnar.
Fleiri myndir frá deginum er á facebook síðu skólans.