Starfskynning í Noregi

6/6/2022 Afrekið Bóknám Erlent samstarf

  • Elvebakken Videregåendeskole
  • Elvebakken Videregåendeskole  - fyrir utan stofur listabrautar
  • Elvebakken Videregåendeskole - iðnnám í rafvirkjun
  • Elvebakken Videregåendeskole - kennslustofa í rafíþróttum
  • Valle Hovin Videregåendeskole - aðstaða fyrir nemendur
  • Valle Hovin Videregåendeskole - bókasafn skólans með útsýni yfir fótboltavöllinn
  • Valle Hovin Videregåendeskole - byggingin er hluti af fótboltaleikvangi
  • Valle Hovin Videregåendeskole - fótboltaleikvangurinn Intility Arena
  • Valle Hovin Videregåendeskole - lyftingasalur skólans

Inga Lára Þórisdóttir íþróttakennari fór á vordögum í starfskynningu til Noregs. Upphaflega ætlaði hún að fara vorið 2020 og þá til Frakklands en vegna aðstæðna varð að breyta því plani og niðurstaðan varð að tveir skólar í Noregi voru heimsóttir.

Fyrri skólinn sem Inga Lára heimsótti var Elvebakken Videregåendeskole  og er hann staðsettur í miðbæ Oslóar. Skólinn er ríkisrekinn og fjölmennur með um 1400 nemendur og fjölbreytt námsframboð. Þar er hefðbundin bóknámsbraut, listnámsbraut, margmiðlunarbraut, fjölmiðlabraut og rafvirkjabraut. Skólinn á sér langa sögu og er mjög vinsæll og þarf háa meðaleinkunn úr grunnskóla til að komast í hann. Móttökurnar voru mjög góðar en aðstoðarskólameistari tók á móti Ingu Láru og kynnti fyrir henni starfsemina og aðstöðuna. Að því loknu fylgdist hún með kennslu í líkams- og heilsurækt í tvo daga.

Seinni skólinn var Valle Hovin Videregåendeskole sem er staðsettur fyrir utan miðbæinn. Sá skóli er einnig ríkisrekinn og er aðeins fimm ára gamall. Í skólanum eru um 500 nemendur. Þessi skóli er mjög íþróttamiðaður en þar fer fram hefðbundið bóknám með tengsl við afreksþjálfun og þá sérstaklega knattspyrnu. Það sem er einstakt við staðsetningu þessa skóla er að húsnæði hans er hluti af nýbyggðum fótboltaleikvangi knattspyrnuliðsins Vålerenga og er afrekssvið skólans í náinni samvinnu við félagið og þjálfara þess. Skólameistarinn og kennararnir tóku mjög vel á móti Ingu Láru og fékk hún að fylgjast með kennslu bæði á afrekssviði og í líkams- og heilsurækt.

Með „job shadowing“ kynnist fagfólk í mismunandi löndum hvernig aðrir nálgast starfið, víkkar sjóndeildarhringinn, fær innsýn i ólíkar aðstæður og fær tækifæri til að spegla eigin störf við það sem fagfólk í öðrum löndum er að gera. Ólíkir skólar gáfu starfskynningu Ingu Láru meira gildi og tækifæri til að hitta fleiri kennara. Ferð sem þessi veitir tækifæri til að mynda tengsl við kennara sem starfa í sama fagi sem oft er hægt að nýta í framtíðinni.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira