Starfskynning í Marsala

11/8/2022 Erlent samstarf Listnám

  • Listaverk í skólanum
  • Íslendingar og ítalir
  • Skreytingar á veggjum skólans
  • Íslendingar með íslenska fánann með ítalskt sósetur í baksýn

Þrír kennarar við leiklistarbraut Borgarholtsskóla heimsóttu ítalska skólann Istituto Statale Pascasino og voru þar við starfskynningu dagana 12. - 17. júní. Skólinn er staðsettur í bænum Marsala á Sikiley.
Fjölbreytt nám er í boði við skólann. Mikil áhersla er lögð á að nemendur tjái sig með aðferðum listgreina. Í skólanum er svo lögð sérstök áhersla á nýsköpun og alþjóðasamstarf. Líflegar skreytingar á skólastofum og göngum vöktu athygli en nemendum skólans var falið að skreyta húsnæðið eftir eigin hugmyndum. Þannig eru skólastofur skreyttar með jákvæðum og hvetjandi skilaboðum til samnemenda og þeirra sem húsnæðið nýta eða heimsækja.

Kennarar við skólann tóku vel á móti íslenska hópnum. Skipulögð hafði verið fjölbreytt dagskrá þar sem samstarf og samvinna ítalskra og íslenskra kennara var í forgrunni.

Heimsókn sem þessi veitir ómetanlega reynslu og gefur kennurum tækifæri til að læra nýjar aðferðir og spegla eigin starfshætti. Einnig myndast tækifæri til frekari tengslamyndunar og samstarfs en ítalski skólinn hefur um árabil verið virkur þátttakandi í Erasmus+ verkefnum sem bæði miða að nemendaheimsóknum og starfskynningum fyrir kennara. Við lok heimsóknarinnar var íslenski hópurinn reynslunni ríkari og leystur út með gjöfum í formi pastapakka og uppskriftar sem er einkennandi fyrir matarmenningu Sikileyjar.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira