Skólinn lokaður áfram

6/4/2020

  • Ljósaskilti með nýju lógói komið á gafl skólans.

Skólinn verður lokaður áfram þar sem búið er að framlengja samkomubann á Íslandi til 4. maí.

Ársæll Guðmundsson skólameistari sendi nemendum skólanum eftirfarandi bréf:

"Kæru nemendur
Nú höfum við lokið við nám og kennslu með fjarkennslusniði í þrjár vikur og almennt séð gengið mjög vel, hreinlega framar vonum. Þið eruð að standa ykkur mjög vel í náminu og mætingin almennt verið til fyrirmyndar.
Páskafríið tekur nú við og hefst kennsla að nýju skv. stundaskrá miðvikudaginn 15. apríl og verður áfram kennt með fjarkennslusniði að hætti hvers kennara til 4. maí. Reikna má með að samkomubanninu verði aflétt upp úr því í áföngum. Vona ég að þá þegar geti nemendur í verklegum greinum komið í verklega hluta námsins í einhverjum mæli. Verið getur að nemendur í bóklegu námi þurfi að bíða eitthvað lengur með að fá að koma í skólann.
Við munum ljúka önninni á tilsettum tíma í bóknámi eins og horfur eru núna þ.e. með brautskráningu 23. maí en brautskráningin gæti hins vegar orðið með öðruvísi sniði en vanalega, jafnvel rafræn. Varðandi verklega námið þá ríkir þar meiri óvissa þar sem við vitum ekki enn fyrir víst hvenær nemendur mega koma í skólann til að ljúka verklegum áföngum en þó er ekki verið að tala um meira en ca. 2 vikur í lengingu annarinnar. Þetta er þó alveg óráðið á þessu stigi málsins. Eitt er þó víst að öllum nemendum verður tryggð annarlok og útskriftarefnum námslok svo fremi sem námsárangur sé viðunandi.
Það er því mjög mikilvægt að þið stundið námið ykkar áfram vel og samviskusamlega. Það eru ekki margar vikur eftir af önninni eftir páska og stutt í annarlokin. Þið hafið staðið ykkur mjög vel hingað til í að læra í fjarnáminu og þið verðið að halda því áfram – þá ljúkum við þessari önn með prýði.
Námsmatið tekur að sjálfsögðu mið af kennslufyrirkomulaginu og því mikilvægt fyrir ykkur að gera öll verkefnin ykkar samviskusamlega og standa skil að öllu því sem kennararnir leggja fyrir ykkur. Eins og fram hefur komið njóta nemendur þess nú að í Borgarholtsskóla er enginn formlegur prófatími og námsmatið samofið kennslunni.
Ég bið ykkur um að hika ekki við að vera í sambandi við námsráðgjafana ykkar, þær Kristínu Birnu og Söndru Hlín ef ykkur finnst námið ganga illa eða ef ykkur líður illa. Einnig eru allir kennararnir ykkar tilbúnir að ræða við ykkur sem og stjórnendur og umsjónarkennarar. Við erum hérna til að styðja við ykkur í náminu og að þið náið árangri og ykkar markmiðum. Við náum alltaf bestum árangri með góðu samstarfi.
Það hefur verið tómlegt í skólanum, við söknum ykkar allra og við hlökkum mikið til að fá ykkur aftur til okkar í skólann.
Gangi ykkur allt í haginn
Gleðilega páska
Ársæll, skólameistari"


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira