Skólinn lokaður

13/3/2020

  • Ljósaskilti með nýju lógói komið á gafl skólans.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum verður samkomubann sett á Íslandi frá og með mánudeginum 16. mars.  Þetta þýðir að loka á öllum háskólum og framhaldsskólum í fjórar vikur.

Ársæll Guðmundsson skólameistari sendi öllum nemendum og forráðamönnum þeirra eftirfarandi bréf.

Frá og með mánudeginum 16. mars og til 10. apríl nk. er nemendum óheimilt að sækja skólann vegna COVID19 faraldursins skv. ákvörðun heilbrigðisráðherra. Námið heldur þó áfram og brýnt að þú sinnir náminu eins og námsáætlunin þín segir fyrir um í hverjum áfanga. Kennararnir þínir munu hafa samband um helgina til að útskýra með hvaða hætti námið muni fara fram. Þannig að nú tekur við heimanám með aðstoð kennaranna, fartölva, síma, spjaldtölva og fleira. Tekin verður mæting í öllum kennslustundum í gegnum umræðuvef og stundaskráin er enn í gildi. Þetta er vissulega breytt umhvefi náms en mikilvægt er að átta sig á því að námið heldur áfram og námsmatið einnig. Einnig vil ég benda á að hægt er að vera í sambandi við náms- og starfsráðgjafa skólans, þær Kristínu Birnu og Söndru Hlín í gegnum tölvupóstfang þeirra. Veikindi og forföll ber að tilkynna í INNU eins og vanalega.
Gangi þér vel í náminu.
Með kveðju, Ársæll Guðmundsson, skólameistari"

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir sendi eftirfarandi upplýsingar frá sér til aðstandenda:

Þegar nemendur verða 18 ára þá lokast á aðgang aðstandenda í Innu. Þessa dagana, þegar mikið er um upplýsingar bæði í Innu og í gegnum tölvupóst, þá getur verið hjálplegt að veita foreldrum aðgang. Til að gera það fer nemandinn í Ég í Innu og þar er valið Aðstandendur og smellt á blýantinn. Myndir af þessu eru sýndar í Innu nemenda undir aðstoð/Nemendur. Þar með komast aðstandendur með sínum rafrænu skilríkjum inn í Innu og eru einnig komnir á póstlista. Ég mæli með því að þau ykkar sem eiga börn sem eru orðin 18 ára nýti sér þetta ef nemendurnir eru sáttir við það.
Kær kveðja
Ásta Laufey, aðstoðarskólameistari"

Skilaboð frá náms- og starfsráðgjöfum:

„Kæru nemendur í Borgarholtsskóla
Í ljósi þeirrar stöðu sem er komin upp vegna COVID19 faraldursins viljum við minna á þjónustu náms- og starfráðgjafa, okkar Söndru Hlínar og Kristínar Birnu.

Við verðum með fjarþjónustu á meðan skólahúsið er lokað. Það er best að hafa samband við okkur í tölvupósti en við getum bæði haft samband símleiðis eða svarað tölvupóstinum, allt eftir því sem hentar. Netföngin okkar eru sandra@bhs.is og kristin@bhs.is.
Þeir nemendur sem þegar eru með bókuð regluleg viðtöl eiga von á því að heyra í náms- og starfsráðgjafa og fara yfir stöðuna.
Við hvetjum alla nemendur til að halda áfram að sinna náminu þrátt fyrir tímabundnar breytingar. Mikilvægt er að halda skipulagi og vinna námið jafnt og þétt.
Á vefnum okkar eru skipulagsblöð sem við hvetjum ykkur til að nota. Verkefnalisti, skipulagsblöð og fleira.
Við óskum ykkur góðs gengis.
Bestu kveðjur,
Kristín Birna og Sandra Hlín
Náms- og starfsráðgjafar"

Þessu til viðbótar er minnt á upplýsingar um starfsfólk og netföng þeirra.

Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki vefnum covid.is en þar eru upplýsingar uppfærðar reglulega.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira