Skólahald í Borgarholtsskóla í upphafi haustannar - ráðstafanir vegna Covid-19

13/8/2020

  • Yfirlitsmynd fyrir innganga (hólfaskipting) í skólahúsnæði

Ljóst er að vegna samkomubanns sem í gildi er vegna heimsfaraldurs Covid-19 verður skólahald í Borgarholtsskóla í upphafi haustannar með óhefðbundnum hætti hjá stórum hluta nemenda. Hér á eftir er yfirlit yfir skipulagið eins og það kemur til með að vera fyrstu tvær vikur kennslunnar. Athugið að fyrirmæli stjórnvalda geta breyst með skömmum fyrirvara og kappkosta stjórnendur skólans að fylgjast vel með og leitast við að tryggja nemendum góða menntun samkvæmt námskrám ekki síður en heilsusamlegt umhverfi. Það er mjög mikilvægt að allir nemendur jafnt sem starfsfólk taki ábyrgð sína alvarlega hvað varðar sóttvarnir og fylgi í hvívetna reglum yfirvalda og skólans þar að lútandi.

Nýnemar fæddir 2004 á öllum brautum:

  • Mæting í skólann samkvæmt stundatöflu frá og með þriðjudeginum 18. ágúst fyrir utan þrjá daga í fjarnámi í annarri viku. Stórir hópar skiptast í tvær stofur. Nýnemar í bóklegum áföngum eru í fjarnámi þriðjudaginn 25. ágúst, miðvikudaginn 26. ágúst og fimmtudaginn 27. ágúst.

Nýnemar fæddir fyrir 2004:

  • Fjarnám samkvæmt stundatöflu frá og með þriðjudeginum 18. ágúst til og með mánudeginum 24. ágúst. Mæting í skólann samkvæmt stundatöflu frá þriðjudeginum 25. ágúst til og með fimmtudeginum 27. ágúst. Aðrir nýnemar (fæddir 2004) í bóklegum áföngum eru í fjarnámi þessa daga.

Nemendur í verklegum áföngum í bíliðngreinum, málmiðngreinum og listnámsgreinum:

  • Mæting samkvæmt stundatöflu frá og með þriðjudeginum 18. ágúst.

Nemendur á sérnámsbraut:

  • Kennsla samkvæmt stundatöflu frá og með þriðjudeginum 18. ágúst.

Nemendur (aðrir en nýnemar) í bóklegum áföngum:

  • Fjarnám samkvæmt stundatöflu frá og með þriðjudeginum 18. ágúst.

Nemendur og kennarar eru almennt hvattir til að dvelja ekki í skólahúsnæðinu lengur en brýna nauðsyn ber til. Eins munu kennarar þeirra nemenda sem eiga að mæta í skólann samkvæmt stundatöflu gefa nemendum tækifæri til að stunda námið að hluta eða öllu leyti heimavið sé þörf á vegna veikinda eða sóttkvíar sé þess nokkur kostur.

Skólinn er hólfaskiptur og eru inngangar merktir inn á meðfylgjandi mynd. Athygli nemenda er vakin á að ekki er heimilt að fara á milli hólfa nema fara út úr byggingunni.

Matsalur nemenda verður tvískiptur, talið verður í hólfin og 100 manna hámarki fylgt til hins ýtrasta. Nemendur eru hvattir til að hafa með sér nesti enda er gert ráð fyrir að tafir geti orðið á afgreiðslu mötuneytis á mestu álagstímunum.

Nauðsynlegt er fyrir alla nemendur að fylgjast vel með tilkynningum um breytingar og leiðbeiningum frá kennurum á Innu, í tölvupósti eða SMS.

Inngangar - yfirlitsmynd

Yfirlitsmynd fyrir innganga (hólfaskipting) í skólahúsnæðiSkipulagið á pdf


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira