Samvinna listnámsbrautar og Menntaskólans í tónlist

25/11/2021 Listnám

  • Verið að flytja græjur út bíl
  • Og enn meira af græjum
  • Bíllinn tilbúinn til ferðar
  • Þetta er vandasamt verk.
  • Tökumenn að störfum
  • Hljómsveitin komin á svið
  • Veggspjaldið var hannað af Teklu Rögn

Nemendur á kvikmyndasviði listnámsbrautar Borgarholtsskóla streymdu tónleikunum Ameríska söngbókin og nemendur í grafískri hönnun á sömu braut hönnuðu grafík og veggspjald. Á tónleikunum fluttu nemendur úr Menntaskólanum í tónlist (MÍT) lög úr söngleikjum og kvikmyndum.

Þetta er í annað skiptið sem þessir framhaldsskólar starfa saman að verkefni en það er bæði gaman og gagnlegt fyrir listnámsnemendur í ólíkum skólum að vinna saman.

Nemendur í grafískri hönnun hönnuðu veggspjöld undir umsjón Ragnhildar Ragnarsdóttur. Veggspjald Teklu Ragnar Ólafsdóttur var valið til notkunar. Adrianna Musial gerði grafíska útfærslu fyrir streymið undir umsjón Kristínar Maríu Ingimarsdóttur en sú síðastnefnda átti jafnframt frumkvæði að þessari samvinnu.

Fimm nemendur af kvikmyndakjörsviði tóku þátt í verkefninu: Adrianna Musial, Andri Snær Sigurðsson, Elín Björg Arnarsdóttir, Jón Egill Egilsson og Niels Salómon Ágústsen Hansen og unnu þau undir handleiðslu Hákonar Más Oddssonar.  Útsendingin er hluti af Verkstæði í kvikmyndagerð eða Kvikmyndun á vettvangi eins og það er kallað.

Til gaman verður hér aðeins gerð grein fyrir þeirri vinnu sem liggur að baki því að streyma slíkum tónleikum. Skipulagning streymisins fór í upphafi fram í tölvupóstsamskiptum en svo var farið í vettvangskönnun og rætt við skipuleggjendur dagskráarinnar, hljóðmeistara og fleiri. Níels og Jón Egill mættu á rennsli kvöldið fyrir viðburðinn, skriftuðu eða tímasettu lögin. Nemendur og kennari hittust í skólanum sama dag og tónleiknum var streymt og þar fór fram lokaskipulagningin á viðburðinum. Tækjabúnaður var tekinn saman í Borgarholtsskóla og farið var með bílhlass af græjum niður í MÍT. Það tekur nokkra klukkutíma að setja upp öll tækin og tengja þau saman og þarf allt að vera klárt fyrir hljóðprufu. Þrátt fyrir góðan undirbúning koma oft upp vandamál sem þarf að leysa og var það gert vel og örugglega. Að tónleikum loknum þarf að taka allt saman og skila græjunum á sinn stað upp í Borgarholtsskóla eftir góða 10 tíma vinnutörn.

Tónleikarnir gengu glimrandi vel og er greinilegt að það eru hörku söngvarar og hljóðfæraleikarar sem stunda nám í MÍT en þau náðu að töfra fram New York stemningu frá síðustu öld.

Allir, sem að þessari samvinnu komu, voru ánægðir og er stefnt á frekara samstarf.

Tónleikana má sjá á YouTube: 

Ameríska söngbókin


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira