Nýtt boltahús - samstarfssamningur undirritaður

6/1/2017

  • Jón Karl Ólafsson, Dagur B. Eggertsson og Ársæll Guðmundsson
  • Jón Karl Ólafsson, Dagur B. Eggertsson og Ársæll Guðmundsson
  • Jón Karl Ólafsson, Dagur B. Eggertsson og Helgi S. Gunnarsson
  • Jón Karl Ólafsson, Dagur B. Eggertsson og Ársæll Guðmundsson
  • Samstarfsamningur undirritaður

Fimmtudaginn 5. janúar 2017 var skrifað undir samkomulag milli Ungmennafélagsins Fjölnis, Borgarholtsskóla og Reykjavíkurborgar.  Ársæll Guðmundsson skólameistari, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og  Jón Karl Ólafsson formaður Fjölnis undirrituðu samkomulagið sem felur í sér að Borgarholtsskóli fær afnot af íþróttamannvirkjum Fjölnis, Egilshallar og Reykjavíkurborgar í Grafarvogi fyrir nemendur sína, með sérstaka áherslu á afreksíþróttasvið skólans. 

Ársæll Guðmundsson og Jón Karl Ólafsson skrifuðu jafnframt undir fyrir hönd Borgarholtsskóla og Fjölnis  samstarfssamning um aðkomu þjálfara Fjölnis að starfi afreksíþróttasviðs BHS í þeim tilgangi að styrkja enn frekar tengsl skólans og Fjölnis til hagsbóta fyrir nemendur og ungmennafélagið.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Helgi S. Gunnarsson forstjóri fasteignafélagsins Regins og Jón Karl Ólafsson formaður Fjölnis undirrituðu samhliða þessu samning um uppbyggingu, framkvæmd og rekstur nýs 3000 fermetra fjölnota íþróttahúss við Egilshöll. Húsið á að rúma tvo handbolta- eða körfuboltavelli. Ungmennafélagið Fjölnir mun fá æfinga- og keppnisaðstöðu þar og Borgarholtsskóli aðstöðu fyrir nemendur af afreksíþróttabraut. Gert er ráð fyrir að húsið verði tilbúið 1. janúar 2018.

Þessir samningar eru allir til mikilla hagsbóta fyrir nemendur Borgarholtsskóla, sérstaklega nemendur af afreksíþróttasviði þar sem aðstaða til íþróttaiðkunar mun batna til mikilla muna.

Meðfylgjandi myndir voru fengnar að láni af facebook síðu Ungmennafélagsins Fjölnis.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira