Öflugt erlent samstarf

10/1/2020

  • Michelin heimsókn kennara og nemenda frá Íslandi og Spáni
  • Anna Bríet, Harpa Karen, Heiðrún Anna, Vilhjálmur Árni, Anton Már og Jón Bald
  • Nýsköpunarhópur í Lettlendi
  • Fulltrúar Borgarholtsskóla í Varsjá að vinna í verkefninu The Unteachables
  • Kennarar og skólastjórnendur frá Íslandi, Króatíu, Spáni, Italíu, Þýskalandi og Ungverjalandi í Borgó

Árið 2017 var ákveðið að efla til muna samskipti Borgarholtsskóla við skóla og stofnanir erlendis. Ráðinn var verkefnisstjóri erlends samstarfs og eftir það hafa um 100 kennarar og nemendur skólans farið til útlanda til þess að efla kunnáttu sína og færni. Kennarar hafa farið í vikulanga starfskynningu í skólum eða á námskeið til þess að kynnast kennsluháttum og nýjungum í kennslu í öðrum löndum. Nemendur hafa farið í einn mánuð í senn sem gestanemendur eða í starfsþjálfun í fyrirtækjum í sínu fagi auk þess sem töluverður fjöldi hefur farið í styttri ferðir með kennurum til þátttöku í fjölbreyttum verkefnum með jafnöldrum sínum víðsvegar um Evrópu. Fjöldi kennara og nemenda hafa jafnframt sótt Borgarholtsskóla heim í sama tilgangi.

Sem dæmi um ferðir nemenda má nefna ferð tveggja stúlkna sem stunda nám í bílamálun en þær fóru til Norður-Spánar í sambærilegan skóla þar. Stúlkurnar vöktu talsverða athygli sem einu kvenkyns nemendurnir í deildinni. Einnig mætti nefna ferð stúlku sem fór til Oxford á Englandi í starfsþjálfun í Montessori leikskóla og ferð nemenda í grafískri hönnun og kvikmyndagerð sem hafa stundað nám sitt við framhaldsskóla í Madrid.

Borgarholtsskóli er ekki aðeins þátttakandi í verkefnum sem önnur lönd skipuleggja því að skólinn á frumkvæði að og stýrir samstarfsverkefni sex landa í listgreinum en verkefnið snýst um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni fyrir árið 2030.

Ferðir kennara og nemenda eru að stærstum hluta fjármagnaðar með styrkjum Evrópusambandsins (Erasmus+) og norrænum styrkjum (Nordplus) sem Rannís (Rannsóknarmiðstöð Íslands) úthlutar. Alls hefur Borgarholtsskóli fengið ríflega 50 milljónir í sinn hlut á síðastliðnum tveimur árum til þeirra verkefna sem hann hefur sótt um. Verkefnin ná til 27 framhaldsskóla í 20 löndum en auk þess hefur skólinn tekið þátt í verkefnum erlendis með Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands. Tengslanet Borgarholtsskóla hefur því tvíeflst á mjög skömmum tíma og styrkt skólann á allan hátt.

Í könnunum sem kennarar fylla út þegar heim er komið kemur fram að þeir telja sig hafa haft mikið gagn af utanlandsferð sinni. Einkum telja þeir að ferðin hafi leitt til aukinnar fagþekkingar og þekkingar á nýjum kennsluháttum. Bæði nemendur og kennarar telja samstarf skóla af þessu tagi efla gagnkvæman skilning á menningu og viðhorfum ólíkra þjóða sem er einmitt einn megintilgangur samstarfs af þessu tagi.

Hægt er að kynna sér erlent samstarf Borgarholtsskóla betur á vefsíðunni https://erlentsamstarf.bhs.is/. Verkefnisstjóri erlends samstarfs er Kristveig Halldórsdóttir.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira