Embla Ágústsdóttir fékk Kærleikskúluna 2009

3/12/2009

  • Embla Ágústsdóttir og María Ellingsen

Embla Ágústsdóttir nemandi á félagsfræðabraut er handhafi Kærleikskúlunnar 2009 sem var afhent í Listasafni Reykjavíkur í gær. Það er Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sem stendur fyrir þessari árlegu viðurkenningu en þetta er í sjöunda sinn sem Kærleikskúlan er afhent. María Ellingsen leikkona afhenti kúluna sem er eftir listamanninn Hrein Friðfinnsson.

Kærleikskúlan er veitt framúrskarandi fyrirmynd á ári hverju. Styrktarfélaginu þótti Embla hafa skarað fram úr með því að vekja athygli á málefnum fatlaðra en einnig með því að hvetja fólk til þess að hafa trú á eigin getu. Í tilkynningu frá félaginu segir að Embla hafi ekki látið hreyfihömlun hindra sig í að lifa lífinu til fulls eða ná háleitum markmiðum í námi og starfi. Með því að miðla af reynslu sinni og lífssýn hafi hún unnið að því að breyta viðhorfum til fatlaðra og fengið fólk til að skilja að þó að hreyfihömlun sé sannarlega áskorun sé hún ekki endilega hindrun eða afsökun.

Viðtal í Sjónvarpinu

Þess má einnig geta að Embla kom fram í 6. þætti í þáttaraðarinnar Nýsköpun – Íslensk vísindi sem er í umsjón Ara Trausta Guðmundssonar. Viðtalið var tekið á bókasafni Borgarholtsskóla. Hægt er að horfa á þáttinn á slóðinni http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4506442/2009/11/05/

Ljósmyndin er fengin úr frétt á vefnum http://www.visir.is/article/200941023524


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira