Nýannir í Borgarholtsskóla

26/8/2009

  • Nemendur á gangi

 

Nemendur á gangiÁ haustönn 2009 fer fram tilraun í Borgarholtsskóla með svokallaðar nýannir. Í stað þess að skipta skólaárinu upp í tvær annir er hugmyndin sú að því verði skipt í fjórar annir. Í því skyni að meta kosti og galla þessa fyrirkomulags var farið af stað með rúmlega 20 námshópa þar sem kenndur er tvöfaldur kennslustundafjöldi í hálfa önn. Að því loknu tekur næsti áfangi við hjá þeim nemendum sem taka þátt í tilrauninni. Hafi nemandi áfanga í stundatöflu með hópnúmerið A eða B (t.d. ÍSL103-A) er hann þátttakandi í tilrauninni. Áfangar sem merktir eru A eru kenndir fyrri hluta annar, þ.e. fram að hausthléi sem er 9. – 12. október. Eftir hausthlé tekur B áfanginn við.

Gagnvart nemendum eru kostirnir við styttri námsannir þó nokkrir. Með því að draga úr fjölda viðfangsefna sem nemandi fæst við hverju sinni má ætla að einbeiting hans og athygli verða meiri á hverju fagi fyrir sig. Styttra námstímabil færir lokamarkmið og lokanámsmat nær nemandanum og því er auðveldara fyrir hann að hafa yfirsýn yfir námsefnið og þær kröfur sem gerðar eru um verkefnaskil og próflestur. Eins stuðla nýannirnar að einfaldara heildarskipulagi skólans sem gæti gefið fleiri tækifæri fyrir nemendur til að velja námsgreinar þvert á brautir og svið og aukið þannig sérhæfingu þeirra.

Á hinn bóginn má nefna að sá tími sem vikulega er varið í hverja námgrein er tvöfalt lengri í nýannakerfinu en það gæti valdið nemendum leiða ef fagið er þeim ekki að skapi. Einnig má gera ráð fyrir að verkefnaskil verði töluvert hröð en á móti kemur að nemandinn er að sinna færri fögum hverju sinni. Loks má nefna að sumar námsgreinar eru þess eðlis að tíminn vinnur með nemendum þ.e. námsefnið „síast inn“ smám saman eftir því sem líður á önnina. Þessu hefur stundum verið líkt við muninn á langhlaupi og spretthlaupi og hafa tungumálakennarar verið einna duglegastir að benda á þessi rök.

Samhliða tilrauninni munu þeir kennarar sem taka þátt í henni vinna rannsókn á starfi sínu. Jafnframt verður unnin rannsókn sem m.a. tekur til árangurs nemenda og viðhorfa til þessa fyrirkomulags. Þess má geta að tilraunin er í beinu sambandi við innleiðingu nýrra laga um framhaldsskóla en í greinargerð með lögunum kemur m.a. fram að markmið laganna sé „að skipulag skólastarfs miðist við kröfur og væntingar nemenda, þar sem sveigjanleiki námsskipulags verði stóraukinn, námsleiðum fjölgað og skilyrði sköpuð fyrir fleiri til að ljúka skilgreindu námi og þar með draga úr brottfalli“ (sjá http://www.nymenntastefna.is/log-um-framhaldsskola/greinargerd/).


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira