Metaðsókn að Borgarholtsskóla

29/6/2009

  • Í sögutíma

Fjöldi umsókna um skólavist í Borgarholtsskóla hefur aldrei verið meiri. Ríflega 1000 umsóknir bárust um skólavist í dagskóla, þar af 366 frá nýútskrifuðum 10. bekkjar nemendum.  Nemur fjölgunin um 21% milli ára.

Borgarholtsskóli er því orðinn einn vinsælasti framhaldsskóli landsins. Af þeim umsóknum sem bárust var um helmingur frá íbúum í nágrenni skólans, þ.e. frá íbúum í Grafarvogi, Grafarholti, Mosfellsbæ og Kjalarnesi. Skólinn er því að styrkja stöðu sína sem hverfisskóli jafnframt því sem umsóknum nemenda annarsstaðar að fer stöðugt fjölgandi.

Athygli vekur að mikill fjöldi umsókna barst frá fólki sem ekki er að koma beint úr grunnskóla. Alls bárust tæplega 650 umsóknir frá þessum hóp, þar af ríflega 500 í fyrsta vali. Þar sem þessi hópur hefur ekki forgang í framhaldsskóla samkvæmt skilgreiningu menntamálaráðuneytis var töluvert stórum hluta þessara umsókna hafnað eða um 60%.

Heildarfjöldi nemenda í dagskóla á haustönn verður 1212, þar af 529 nýir nemendur eða endurinnritaðir. Ef kynjaskipting er skoðuð kemur í ljós að hlutfall kvenna er 38% en karla 62%. Skýrist þetta af því að málm- og bíliðnbrautir, þar sem mikill meirihluti nemenda er karlkyns, eru stórar við skólann. Ef bóknámsbrautir eru skoðaðar sérstaklega kemur í ljós að þeir 404 nemendur sem þar munu stunda nám í haust skiptast nánast jafnt á milli kynja.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira