Áhugaverðar rannsóknir

26/2/2009

  • Rannsóknir kennara

Á haustönn sögðum við frá því hér á vefnum að nokkur fjöldi kennara í bóknámi tæki þátt í svokölluðum starfendarannsóknum. Hægt er að lesa grein um þetta efni og um rannsókn Ívars sálfræðikennara frá því í desember. Hér fyrir neðan verður sagt frá tveimur öðrum áhugaverðum verkefnum sem kennarar við skólanna hafa verið að fást við.

Líðan og starfsumhverfi framhaldsskólakennara

Guðrún Ragnarsdóttir kennslustjóri í bóknámi gudrun_ragnarsdottir2vann meistaraverkefni um líðan og starfsumhverfi framhaldsskólakennara en hún lauk MPH námi í lýðheilsufræðum frá Háskólanum í Reykjavík í ágúst í fyrra. Félag framhaldsskólakennara aðstoðaði Guðrúnu við kynningu og framlögn spurningalista sem liggja verkefninu til grundvallar og þátttaka fór fram úr björtustu vonum. Af þrjátíu framhaldsskólum tóku tuttugu og átta þátt. Niðurstaða Guðrúnar er sú að bóknámskennarar séu óánægðari í starfi en verknámskennarar. Lesa má viðtal við Guðrúnu um helstu niðurstöður rannsóknarinnar í Skólavörðunni, málgagni Kennarasambands Íslands.  

Opnum kennslustofuna

Meistaraverkefni Hafdísar Ólafsdóttur kennara á lista- og fjölmiðlasviði fjallar um áhrif námsumsjónarkerfisins Moodle á starfið í kennslustofum tveggja framhaldsskóla á Íslandi. hafdis_olafsdottirSkólarnir eru Borgarholtsskóli og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti. Markmið rannsóknarinnar var að kanna viðhorf kennara og nemenda til kerfisins; hvað þeir telji að hindri og hvernig þeir telji að hugbúnaðurinn eigi möguleika á að bæta námið. Rannsóknin byggir á viðtölum við níu kennara og þrjá rýnihópa nemenda. Kennarar töldu að með notkun Moodle mætti fá virkari og ábyrgari nemendur og að kerfið byði upp á sveigjanleika í námi sem hentaði jafnt í staðbundnu námi sem og fjarnámi. Bæði nemendur og kennarar töldu mikinn kost að hafa allt efni sem tilheyrir áfanga á sama stað og aðgengilegt þegar hverjum og einum hentar. 


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira