Leikrit eftir nemendur flutt í útvarpi

23/1/2009

  • Leiklistarnemar taka upp útvarpsleikrit

Það vakti athygli í nóvember og desember þegar einþáttungar eftir nemendur í Borgarholtsskóla voru fluttir í þættinum Stjörnukíkir á Rás 1. Það var hluti af námi leiklistarnemanna að fara í hljóðver til að taka upp útvarpsleikrit.

Leiklist er valáfangi í Borgarholtsskóla. Í náminu fá nemendur að kynnast ýmsum sviðum listarinnar. Þau fá meðal annars þjálfun sem ýtir undir sköpunargáfuna og ímyndunaraflið en nemendur hafa til dæmis flutt eigin einleiki í prófum. Nemendur fá jafnframt að heimsækja leikhús, fylgjast með æfingum leikhópa og fara baksviðs á sýningum. Einnig hefur verið farið í heimsókn í Útvarpsleikhúsið hjá Ríkisútvarpinu.

Fimm nemendur í áfanganum leiklist 603 skrifuðu handrit leikritanna en þau voru flutt af nemendum í 503 hópnum og tekin upp í hljóðveri Ríkisútvarpsinsn í Efstaleiti. Höfundar útvarpsleikritanna eru Agnes Þorkelsdóttir Wilde, Ellý Tómasdóttir, Hjörtur Freyr Hjartarson, Egill Kaktus Þorkelsson Wilde og Kristína Björk Arnórsdóttir. Verkin fjalla um lífið, ástina og dauðann en sögusviðið er löggubílar, flugvélar og kaffihús. Kennari nemendanna er Guðlaug María Bjarnadóttir.

Þætti Stjörnukíkis má nálgast inni á hlaðvarpi Ríkisútvarpsins á slóðinni http://ruv.podcast.is/stjornukikir/podcast.xml

Stjörnukíkir er þáttur um listnám og skapandi starf með íslenskum börnum og ungmennum en hann er á dagskrá á laugardögum klukkan 14:40 og er endurtekinn á föstudögum klukkan 20:30.

Myndin er fengin af fréttavef Morgunblaðsins.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira