500 nemendur á hlaupum

17/11/2008

  • Hópurinn nálgast skólann

 

Um það bil 500 nemendur í Borgarholtsskóla tóku þátt í upphafsverkefni íþróttavakningar framhaldsskólanna með því að ganga eða hlaupa 3 km sl. miðvikudag. Menntamálaráðuneytið stendur fyrir þessari vakningu sem heldur áfram eftir áramót með ýmsum keppnum, bæði á sviði keppnis- og almenningsíþrótta. Nemendur Borgarholtsskóla stóðu sig frábærlega og var þátttaka framar vonum. Kennarar tóku einnig þátt með því að halda utan um hlaupið. Þá voru nokkrir úr röðum kennara skipaðir svokallaðir "hérar" og leiddu nemendur rétta leið enda miklir hlaupagikkir þar á ferð.

Hörku keppnisskap hljóp í suma nemendur sem fóru leiðina á mjög góðum tíma á meðan aðrir tóku því rólega, gengu og spjölluðu við vini og félaga á leiðinni.

Gengið var framhjá Spöng og niður með útilistaverkum Hallsteins Sigurðsson við Strandveg, meðfram sjónum og upp í gegnum Borgahverfið þar sem kennarar tóku á móti nemendum. Nemendaráð var einnig á staðnum og bauð hlaupurunum uppá skyr og banana þegar þeir komu í mark þreyttir og sællegir.

Miðað við hversu vel gangan gekk liggur fyrir að hún verður að árlegum viðburði í skólanum.

Það voru íþróttakennarar skólans sem höfðu yfirumsjón með framkvæmdinni í Borgarholtsskóla.

Hópurinn nálgast skólannNemandi á hlaupum Göngugarpur


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira