Afrekssvið íþrótta á fullu flugi

4/11/2008

  • Afreksíþróttahópur haust 2008

Afrekssvið íþrótta við Borgarholtsskóla sem hóf störf í haust er á fullu flugi um þessar mundir og árangur með miklum ágætum. Íþróttamenn í knattspyrnu, körfubolta og golfi stunda þrjár æfingar í viku í sinni grein sem hluta af námi sínu við skólann. Nú er opið fyrir umsóknir fyrir næstu önn. Hægt er að nálgast umsóknareyðublöð á skrifstofu Borgarholtsskóla og rennur fresturinn út 20. nóvember.

Nemendur sem stunda nám á afrekssviðinu eru nú 44 talsins og hefur starfið tekist frábærlega vel í haust. Nemendur hafa nú þegar fengið að vera undir stjórn ýmissa landsliðsþjálfara enda eru á annan tug landsliðsmanna á sviðinu. Gæðin á æfingunum eru mjög mikil og einnig hefur skapast mikil og skemmtileg samstaða meðal nemenda sem kynnst hafa náið. Að auki hafa nemendur prófað aðrar greinar eins og skvass, herþjálfun og lyftingar. Í burðarliðnum er að nemendur fái sérstaka næringarráðgjöf ásamt því að sjúkraþjálfari mun kenna æfingar til að fyrirbyggja meiðsli. Auk þess kemur fitnessþjálfari sem kennir nemendum að komast í sitt allra besta líkamsform.

Vert er að geta þess að áhugi nemenda á æfingunum er til fyrirmyndar. Nemendur leggja sig einstaklega mikið fram enda flestir í fremstu röð í sinni grein. Þar að auki eru langflestir yfir meðaltölum hvað varðar námsárangur og mætingu í skólann. Það má því með sanni segja að afrekssviðið sé komið á fullt flug í Borgarholtsskóla.

Nánari upplýsingar um sviðið og umsóknareyðublað

Á vorönn 2009 verður boðið upp á afreksíþróttasvið í knattspyrnu, körfuknattleik og golfi í Borgarholtsskóla. Nemendur á afreksíþróttasviði geta stundað nám á hvaða bóknámsbraut skólans sem er.

Afreksíþróttaáfangi er fyrir nemendur sem vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða bóknámi. Afreksíþróttaáfangi er fjórar einingar á önn.

Kennslufyrirkomulag
Nemendur fá þrjár æfingar á viku á skólatíma. Auk þess er eitt helgarnámskeið á hverri önn þar sem lögð er áhersla á ýmsar stoðgreinar sem nýtast afreksíþróttafólki.

Kennslustaðir
Knattspyrna: Egilshöll
Körfuknattleikur: Íþróttahús Fjölnis, Dalhúsum
Golf: Korpúlfstaðavöllur - Básar
Auk þess fá nemendur aðgang að World Class í Spöng.

Kröfur til nemenda

  • hafi stundað íþrótt sína í nokkur ár og verið virkur iðkandi í íþróttafélagi
  • hafi staðist grunnskólapróf
  • sé vímuefnalaus íþróttamaður
  • geti tileinkað sér hugarfar og lífsstíl afreksíþróttamanns
  • standist eðlilega námsframvindu og ljúki u.þ.b. 15- 19 einingum á önn
  • hafi a.m.k. 95% skólasókn

Efnisgjald fyrir afreksíþróttasvið á vorönn 2009 er kr. 5.000, til viðbótar við önnur skólagjöld. Efnisgjald fyrir nýskráningar á afreksíþróttasvið er kr. 25.000, til viðbótar við önnur skólagjöld.

Umsóknareyðublað  (pdf-skjal) fyrir þá sem vilja sækja um afreksíþróttaáfanga í Borgarholtsskóla. Einnig er hægt að nálgast eyðublaðið á skrifstofu skólans.

Nemendur þurfa að prenta út eyðublaðið, fylla það út og skila á skrifstofu Borgarholtsskóla í síðasta lagi 20. nóvember 2008. Ekki er hægt að sækja um afreksíþróttanámið rafrænt.

Upplýsingablað - þjálfarar o.fl.  (pdf-skjal).

Allar nánari upplýsingar veitir
Bjarni Jóhannsson
Verkefnisstjóri afreksíþrótta BHS
Sími 896 8566
bjarni@bhs.is

Afreksíþróttahópur haust 2008

 


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira