Mikil aðsókn að skólanum
Það eru þétt setnar skólastofur í húsinu þetta haustið eins og undanfarin ár. Rúmlega 1500 nemendur eru innritaðir á haustönn og er skólinn fullur. Um 1100 nemendur hefja nám í dagskóla en sem fyrr eru fleiri námsleiðir í boði. Í dreifnámi eru tæplega 200 nemendur, um 90 í kvöldskóla og síðdegisnámi og grunnskólanemendum í hverfinu býðst einnig að taka valáfanga hér í Borgarholtsskóla.
Það er gaman að sjá hvernig nemendur flykkjast að skólanum á morgnana, ýmist á hjólum, bílum eða fótgangandi. Mikill erill hefur verið á skrifstofu undanfarna daga vegna afhendingar á stundaskrám og afgreiðslu beiðna um breytingar á þeim. Tekið var á móti nýnemum fimmtudaginn 21. ágúst. Fyrst var stutt dagskrá í sal en síðan fóru nemendur í stofur til sinna umsjónarkennara. Sjá mátti eftirvæntingu á mörgum andlitum. Kennsla í dagskóla hófst föstudaginn 22. ágúst.