Samningur um félags- og tómstundanám

29/5/2008

  • Samningur um félagsmála- og tómstundabraut

Skrifað hefur verið undir samning milli Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Borgarholtsskóla um að hafið verði dreifnám í félags- og tómstundafræði í Borgarholtsskóla haustið 2008. Verkefnið hlaut styrk frá Starfsmenntasjóði félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Að því er stefnt að um 30 starfsmenn Reykjavíkurborgar innritist í námið sem verður fjórar annir.

Meginmarkmið náms á Félagsmála- og tómstundabraut er að efla fagþekkingu ófaglærðs starfsfólks á vettvangi frítímans. Námið er ætlað fólki sem hyggst starfa við æskulýðs-, tómstunda- og félagsmál. Í flestum nágrannaríkjunum hefur frístundafræði fest sig í sessi og mikilvægi hennar viðurkennt. Í ljósi breyttra þjóðfélagsaðstæðna hefur starfsmönnum á þessu sviði fjölgað mikið á Íslandi á undanförnum árum og því mikilvægt að bjóða upp á nám af þessu tagi. Til að mynda starfa um 700 starfsmenn á frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum á vegum Íþrótta- og tómstundasviðs Reykavíkurborgar á vorönn 2008. Þrátt fyrir að nám á háskólastigi í tómstundafræði hafi verið til staðar á Íslandi í nokkur ár hefur stærstur hluti starfsmanna við þessi störf ekki fagmenntun. Borgarholtsskóli hefur frá upphafi átt náið og farsælt samstarf við sveitarfélög, Samband sveitarfélaga, stéttarfélög og aðra hagsmunaaðila varðandi uppbyggingu náms fyrir ófaglært starfsfólk, m.a. á sviði félagsþjónustu, skólamála og öldrunarþjónustu. Til að koma til móts við ólíkar og breyttar þarfir nemenda til menntunar á þessum sviðum hefur Borgarholtsskóli þróað kennsluhætti sem sérsniðnir eru að þörfum fólks sem er að hefja nám á nýjan leik.

Samningurinn sem nú hefur verið undirritaður kveður meðal annars á um að samningsaðilar muni hafa með sér náið samráð og samstarf varðandi framkvæmd kennslunnar, aðlögun námsefnis að dreifnáminu og kynningu á náminu. Borgarholtsskóli mun bera ábyrgð á umsjón og framkvæmd verksins, þ.e. aðlögun námsefnis að vefnotkun og kennslu. Gert er ráð fyrir að starfsmenn hjá Íþrótta- og tómstundasviði hafi forgang í námið frá haustönn 2008 og fram til vorannar 2010.
Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira