Útskrift á vorönn

24/5/2008

  • Hvítir kollar

Útskriftarhátíðin fór fram í sal skólans laugardaginn 24. maí. 195 nemendur voru að útskrifast að þessu sinni. Nemendahópurinn var fjölbreyttur að venju. Námi sínu lauk fólkið ýmist í dagskóla, kvöldskóla, dreifnámi eða síðdegisnámi og af eftirtöldum brautum: aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum (10), bíliðngreinar (25), bóknám til stúdentsprófs (45), félagsliðabraut (52), lista- og fjölmiðlagreinar (22), málm- og véltæknigreinar (14), starfsbraut (6), verslunarbraut (8), viðbótarnám við list- og starfsnámsbrautir (13). Ennfremur voru 15 af fyrrnefndum nemendum að klára aðra námsleið til viðbótar, í flestum tilvikum viðbótarnám til stúdentsprófs auk styttri námsbrautar.

Í máli Ólafs Sigurðssonar skólameistara kom fram að nemendafjöldinn hafi aldrei verið meiri en á þessu 12. starfsári. Síðast liðið haust innrituðust um 1400 manns í nám við skólann. Þar af eru um 1050 dagskólanemendur en auk dagskóla er boðið upp á síðdegisnám, kvöldskóla og dreifnám sem er einkum ætlað fólki í vinnu. Einnig er boðið upp á málmiðngreinar og bóklegar greinar fyrir nemendur í elstu bekkjum grunnskóla. Segja má um nemendahópinn í dagskóla að um þriðjungur stundi nám í iðngreinum, um þriðjungur leggi stund á bóknám til stúdentsprófs og þriðjungur sé á námsbrautum sem teljast til nýjunga í framhaldsskólakerfinu sem í flestum tilvikum voru ekki til í skólakerfinu fyrr en Borgarholtsskóli tók þær upp. Þar má nefna margmiðlunarhönnun og upplýsinga- og fjölmiðlagreinar, starfsnám á sviði verslunar, félagliðanám, starfsbraut og almenna námsbraut. Þessa dagana er verið að gera samstarfssamning við íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar um menntun starfsmanna í félagsmiðstöðvum og á frístundaheimilum sem mun fara fram í dreifnámi. Við skólann vinna um 120 manns, um 90 kennarar og 25 starfsmenn á hinum ýmsu stoðsviðum.

Um leið og nemendur tóku við skírteini um námslok fengu þeir afhenta litla birkiplöntu tilbúna til að setja í mold með þeirri ósk að þeir hlúi vel að plöntunni og sjálfum sér í framtíðinni.

Halldór Albertsson fékk verðlaun fyrir ágætan árangur á stúdentsprófi. Helgi Magnússon fékk verðlaun fyrir góðan félagsþroska og fyrirmyndar framkomu á starfsbraut. Hildur Eiríksdóttir og Erna Stefánsdóttir fengu verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á félagsliðabraut-brú. Hrafnkell Thorlacius fékk verðlaun fyrir ágætan árangur í faggreinum bíliðna. Fjölmargir aðrir fengu verðlaun fyrir árangur í einstökum námsgreinum.

Daðey Albertsdóttir flutti ræðu útskriftarnema en hún er fráfarandi framkvæmdastjóri nemendafélags skólans. Hún fékk jafnframt verðlaun fyrir ágætan árangur í ensku en þess má geta að hún er systir Halldórs sem fékk verðlaun fyrir árangur á stúdentsprófi. Ágúst Einarsson rektor Háskólans á Bifröst flutti einnig ávarp við athöfnina. Sönghópur Borgarholtsskóla undir stjórn Braga Þórs Valssonar og skólahljómsveit Mosfellsbæjar sáu um tónlistarflutning.

Útskriftarhópur á vorönn 2008

Útskriftarefni

Ólafur skólameistari

Ágúst Einarsson rektor á Bifröst

Útskriftarhópur

Útskriftarhópur

Daðey Albertsdóttir


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira