Þrekraunir

28/4/2008

  • Sólrún og Ásta Laufey í maraþongalla

Starfsmenn skólans sinna ýmsum hugðarefnum í sínum frístundum og er hreyfing ofarlega á lista hjá mörgum. Fjórir kennarar við skólann hafa vakið athygli undanfarið fyrir sín afrek.

Enskukennararnir Sólrún og Ásta Laufey tóku þátt í Bostonmaraþoninu 21. apríl sl. Ásta Laufey kom í mark á góðum tíma þrátt fyrir erfið meiðsli og aðrar hremmingar. Sólrún náði tímanum 3:24 sem er þriðji besti tími íslenskrar konu á þessu ári og jafnframt persónuleg bæting um 20 mínútur. Af 26 þúsund keppendum sem hófu hlaupið luku rúm 21 þúsund keppni og Sólrún náði 600. sæti af konunum. Þær stöllur komu sólbrenndar til baka en fræðast má um maraþonið á vefnum http://www.bostonmarathon.org/.

Gunnlaugur náttúrufræðikennari og Sigurbjörg listgreinakennari héldu á Hvannadalshnjúk um síðustu helgi. Undirbúningur hafði staðið yfir í nokkurn tíma en veður setti heldur betur strik í reikninginn hjá fólkinu sem fór á upp á Öræfajökul aðfararnótt laugardags. Hópurinn hafði gengið upp í 1700 metra hæð, þar af fjóra tíma í skafrenningi. Þá var ákveðið að snúa við en á niðurleið féll leiðsögumaðurinn ofan í stóra sprungu. Lesa má meira um ferðina á bloggsíðu Gunnlaugs.

Halla Karen íþróttakennari var í gönguhópi sem þurfti að snúa við á svipuðum stað í ferð á Hvannadalshnjúk sumardaginn fyrsta. Þrír starfsmenn hafa komist alla leið svo vitað sé; Kristinn náttúrufræðikennari, Óttar námsráðgjafi og Bryndís aðstoðarskólameistari en fleiri stefna á að klífa þennan hæsta tind Íslands.

Gunnlaugur og Sigurbjörg í hópi göngufólks
Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira